
Verðlaun fyrir lyftingafólk og Ungmenni ársins voru gefin í dag eftir seinasta mótshluta Norðurlandamótsins.
Lyftingafólk ársins 2020

Arnór Gauti Haraldsson (1998) keppir fyrir hönd Lyftingafélags Garðabæjar í -89 kg flokki.
Arnór náði hæstu Sinclair stigum ársins á Sumarmóti LSÍ þann 25. júlí síðastliðin með 350,8 stig er hann setti þrjú ný íslandsmet á mótinu í miklu einvígi við Daníel Róbertsson, Lyftingamann ársins 2019. Í jafnhendingu lyfti hann 159 kg, snörun 135 kg og þá 294 kg í samanlögðu. Arnór heldur nú 6 íslandsmetum. Þremur metum í -89 kg flokki senior og þremur metum í -89 kg flokki U23. Arnór tók þátt á sínu fyrsta móti 2014 og þá 16 ára á Haustmóti LSÍ sem haldið var Sporthúsinu í Kópavogi. Þá keppti Arnór í gamla -69 kg flokknum og náði 65 kg í snörun, reyndi við 85 kg í jafnhendingu en fékk ógilar allar 3 tilraunir. Arnór er nú orðinn fjórði stigahæsti lyftingamaður frá 1998 þegar þyngdarflokkum var breytt, aðeins 22 ára gamall og hlökkum við mikið til að sjá hvað framtíðinn ber í skauti sér fyrir hann.

Lyftingakona ársins

Þuríður Erla Helgadóttir (1991) keppir fyrir hönd Lyftingafélags Kópavogs í -59 kg flokki. Seinustu tvö ár hefur Þuríður einungis keppt á erlendum mótum fyrir hönd Íslands og stefnir á Ólympíuleikana í Tokyo 2021. Þuríður tók þátt á sínu fyrsta móti árið 2011 á fyrsta mótinu í Ólympískum lyftingum eftir endurvakningu Lyftingasambandsins 2010 og var ein kvenna á því móti og þá í -58 kg flokki sem var og hét. Setti hún þá íslandsmet í öllum lyftum sem endaði í 52 kg í snörun, 70 kg í jafnhendingu, 122 kg í saman lögðu og 174,3 Sinclair stigum. Síðan þá hefur Þuríður tekið þátt á 33 mótum í Ólympískum lyftingum samkvæmt results.lsi.is. Þuríður náði hæstu Sinclair stigum ársins 2020 á Roma World Cup sem var úrtökumót fyrir ólympíuleikana haldið í Róm þann 28. janúar með 249,9 stig. Þuríður er fremsta lyftingakona Íslands frá byrjun skráningar og heldur þremur Íslandsmetum í -59 kg flokki Senior með 87 kg í snörun, 105 kg í jafnhendingu og 189 kg í samanlögðu

Ungmenni ársins 2020
Ungmenni ársins U20

Símon Gestur Ragnarsson (2001) keppir fyrir hönd UMFSelfoss nú í -96 kg flokki, en hefur einnig keppt í -89 kg flokki fyrr á árinu. Símon hefur keppt í Ólympískum lyftingum síðan í febrúar 2019 er hann tók þátt á Íslandsmeistaramótinu það ár, en þá tók hann 95 kg í snörun, en féll á jafnhendingunni og skráðist því sjálfkrafa úr keppni. Í dag á Símon íslandsmetið í Snörun bæði í -89 kg flokki Junior (20 ára og yngri) með 119 kg og í -96 kg flokki Junior og U23 með 121 kg. Best á hann í dag 135 kg í jafnhendingu á móti. Má get þess að í dag 20. des varð Símon Gestur Norðurlandameistari í -96 kg flokki 20 ára og yngri. Besta mót Símons var á Íslandsmeistaramóti Unglinga í ár í -89 kg flokki. Þar setti hann íslandsmetið í snörun 119 kg og 132 kg í jafnhendingu sem skilaði honum 292 sinclair stigum.


Katla Björk Ketilsdóttir (2000) keppir fyrir hönd Massa í Njarðvík í -64 kg flokki. Katla heldur engum metum í dag en hefur sett ein 84 íslandsmet á sínum ferli en hefur hún keppt í ólympískum lyftingum frá 2016. Best á Katla þyngdir frá Reykjavíkurleikum 2020 í janúar með 78 kg í snörun og 91 kg í jafnhendingu sem skilaði henni 222,35 Sinclair stigum en var það hennar fyrsta mót í heilt ár. Fyrir utan það að vera stiga hæst unglinga 2020 er Katla fjórða stigahæsta konan 2020.

Ungmenni ársins U17

Brynjar Ari Magnússon (2004) keppir fyrir hönd Lyftingafélags Reykjavíkur í -89 kg flokki. Brynjar heldur nú 12 Íslandsmetum og þá í U15 og U17 í -81 kg flokki og -89 kg flokki en hefur sett önnur 46 met. Brynjar hefur keppt í Ólympískum lyftingum frá árinu 2016 þá aðeins á tólfta aldursári og þá í -69 kg flokki. Nú hefur mikið vatn runnið til sjávar. Á hans fyrsta móti tók Brynjar 50 kg í snörun og 55 kg í jafnhendingu með þá 105 kg í samanlögðu og 144,4 Sinclair stig. Brynjar tók sitt allra besta mót á NM Unglinga 19. desember síðastliðin, þá með 118 kg í snörun, 130 kg í jafnhendingu (en best á hann 135 kg) og 248 kg í samanlögðu og þá með 294,9 Sinclair stig.


Erika Eik Antonsdóttir (2003) keppir fyrir hönd Lyftingafélags Kópavogs í -59 kg flokki. Erika hefur aðeins keppt á þremur mótum síðan 2018 en heldur samt 6 metum í -59 kg flokki, þá í U15 og Youth (U17) og hefur sett önnur 6 met. Besta mót Eriku til þessa var á NM Unglinga 2020. Þar tók hún 66 kg í snörun, 76 kg í jafnhendingu og 142 í samanlögðu. Þetta skilaði henni 196,69 Sinclair stigum.

Ungmenni ársins U15

Bjarki Þórðarson (2006) keppir fyrir hönd Lyftingafélags Kópavogs í -96 kg flokki. Bjarki tók fyrst þátt á Jólamóti LSÍ 2019 þá á þrettánda aldursári. Bjarki heldur þremur íslandsmetum í -96 kg flokki U15 með 56 kg í snörun, 77 kg í jafnhendingu og 133 kg í samanlögðu með 153,96 Sinclair stig. Þessar tölur setti hann á öðru móti sínu á Íslandsmeistaramóti LSÍ í febrúar síðastliðin.

Bergrós Björnsdóttir (2007) keppir fyrir hönd UMFSelfoss í -64 kg flokki. Bergrós tók þátt á sínu fyrsta móti á Jólamóti LSÍ 2019, þá á sínu tólfta aldursári. Bergrós heldur nú 5 Íslandsmetum í U15 og Youth (U17) en þau met setti hún á NM Unglinga 2020, en hefur einnig sett önnur 8 met. Best á hún 65 kg í snörun, 75 kg í jafnhendingu, 140 kg í samanlögðu og 182,6 Sinclair stig. Þessar tölur setti hún á NM Unglinga 2020 og má geta þess að þessi 13 ára mær snaraði 1,5 kg yfir eigin líkamsþyngd.
