Tveir íslendingar hljóta Elite Pin Norðurlandasambandsins

Á norðurlandamóti unglinga sem haldið var síðastliðna helgi voru þrjár lyftingakonur heiðraðar með Elite Pin NWF (Nordic Weightlifting Federation) þar af tvær íslenskar.

Það voru Katla Björk Ketilsdóttir (f.2000) sem fékk merki númer 166 fyrir að lyfta samtals 194kg í -64kg flokki á Evrópumeistaramótinu í lyftingum sem fram fór í Tirana, Albaníu þann 31.Maí síðastliðinn.

Merki númer 168 fékk síðan Eygló Fanndal Sturludóttir (f.2001) fyrir að lyfta samtals 205kg í -71kg flokki kvenna einnig á EM í Albaníu en hennar flokkur var 1.Júní síðastliðinn.

Frá vinstri, Katla Björk Ketilsdóttir, Aino Luostarinen frá Finnlandi og Eygló Fanndal Sturludóttir eftir afhendingu Elite Pin.

Elite Pin er hefur verið afhentur í yfir 50 ár og má sjá lista yfir þá sem hafa fengið hann hér.

Aðeins sjö íslendingar hafa fengið Elite Pin en þeir eru:

Nr. 30 afhent 1976: Gústaf Agnarsson (f.1952-d.2007) sá lyftingamaður sem lyft hefur mestri þyngd í snörun (170kg), jafnhendingu (210kg) og samanlögðu 375kg. Gústaf hóf oft keppni mjög hátt í snörun og féll því oft úr keppni á alþjóðlegum mótum.

Nr. 31 afhent 1976: Guðmundur Sigurðsson (f.1946) fulltrúi Íslands á Ólympíuleikunum í Munchen 1972 (13.sæti) og Montreal 1976 (8.sæti) sem og ótal evrópu og heimsmeistaramótum.

Nr.83 afhent 1993-1995: Haraldur Ólafsson (f.1962). Þrátt fyrir að hafa fengið Elite Pin á árunum 1993-1995 nær Haraldur sýnum besta árangri á áttunda áratugnum. M.a. sinni hæstu Sinclair stigatölu þegar hann lyftu 127,5kg í snörun og 172,5kg í jafnhendingu í -75kg flokki á EM 1984 (15.sæti)

Nr. 140 afhent 2016: Þuríður Erla Helgadóttir (f.1991). Fyrir árangur á Evrópumeistaramótinu 2016 þar sem hún lyftu 80kg í snörun og 103kg í jafnhendingu samanlagt 183kg í -58kg flokki. Besti árangur Þuríðar til dagsins í dag var á HM 2017 þar sem hún endaði í 10.sæti og lyfti 86kg og 108kg í jafnhendingu í -58kg flokki kvenna.

Nr. 144 afhent 2017: Andri Gunnarsson (f.1983). Fyrir árangur á Evrópumeistaramótinu 2017 þar sem Andri snaraði 160kg og jafnhenti 195 í +105kg flokki karla. Það var jafnframt síðasta mót Andra.

Stefnt er að útgáfu 50 ára afmælisrits LSÍ árið 2023 þar sem farið verður yfir ýmis afrek íslendinga á lyftingapallinum og sá sem þetta ritar tekur því aðeins forskot á sæluna hér að neðan í smá sögulegri yfirferð um Gústaf Agnarsson.

Þrátt fyrir að báðir hafi þeir Gústaf og Guðmundur fengið Elite Pin 1976 voru þeir vel að honum komnir árin á undan, árangur Guðmundar á Ólympíuleikunum 145-187,5=332,5kg í -90kg flokki var besti árangur hans á erlendu móti á ferlinum. Gústaf lyfti 157,5-192,5=350kg á Íslandsmeistaramótinu í -110kg flokki þetta ár og reyndi við nýtt norðurlandamet í snörun 170,5kg sem hann sat undir.

Kafli úr ársskýrslu Lyftingasambandsins 1974 er svo hljóðandi sýnir vel hversu illa Gústaf gekk að ná árangri á stórmótum.

Norðurlandameistaramótið fór fram í Fredrikstad í Noregi, í endan á apríl s.l.. LSÍ sendi fimm þátttakendur og var Finnur Karlsson farastjóri. Keppendur voru þessir.Skúli Óskarsson sem keppti í millivigt og náði 5.sæti með 245kg. Friðrik Jósepsson sem keppti í milliþungavigt, en féll úr, eftir að hafa snarað 135kg. Guðmundur Sigurðsson keppti í milliþungavigt og náði 3.sæti með 320kg samanlagt. Gústaf Agnarsson sem keppti í þungavigt, en féll úr. Óskar Sigurpálsson sem keppti í þungavigt og náði 3.sæti með 310kg samanlagt. Má LSÍ vel við una, árangri ísl. keppendanna, því miðað við getu í öðrum ísl. íþróttagreinum var hann frábær.
Um mánaðarmótin maí-júní fór fram Evrópumeistaramótið í Verona á Ítalíu. Fyrir hönd Íslands kepptu þeir Guðmundur Sigurðsson og Gústaf Agnarsson. Varð Guðmundur áttundi í milliþungavigt með 322,5kg samanlagt. Gústaf keppti í þungavigt, en því miður féll hann úr.
Á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Manila á Filippseyjum kepptu þeir, Gústaf og Guðmundur fyrir hönd Íslands, en farastjóri var Finnur Karlsson. Var þessi ferð farinn LSÍ algjörlega að kostnaðarlausu. Þar náði Guðmundur 10. sæti í milliþungavigt með 320kg samtals en Gústaf féll úr, því miður.

Erling Johansen sem keppti þrisvar fyrir dani á ólympíuleikunum 1972,1976 og 1980 sagði mér skemmtilega sögu af Gústaf af heimsmeistaramótinu 1974 í Manila á Filipseyjum. Á Evrópumeistaramótinu fyrr á árinu hafði Gústaf þá aðeins 22 ára snarað 155kg í -110kg flokki en fallið úr keppni í jafnhendingu. Þrjár þyngstu lyftur á EM 1974 í snörun voru Valentin Hristov (Bulgaria) – 167.5kg, Jurgen Ciezki (A-þýskaland) 165kg og Valery Ustyuzhin (Sovét) (162.5kg). Þegar á heimsmeistaramótið var komið bað Gústaf hann Erling um að hjálpa sér í keppninni, þegar Erling spyr hann hvaða þyngd hann ætli að opna á segir Gústaf 160kg. Erling spyr hvort það sé nú ekki full vel ílagt, heimsmetið á þeim tíma var 177.5kg og engin hafði meldað svo þunga opnunarþyngd. En Gústaf var ekki haggað hann hafði reiknað út að 160kg myndu duga honum í bronsverðlaun á mótinu í snörun og hann ætlaði sér ekki minna afrek. Erling klóraði sér í hausnum og sagði bara gott og vel, ég skal hjálpa þér og þá hófst biðin. Í loka upphitunarlyftunni snýr Gústaf sig á vinstri ökkla og Erling þarf að teipa hann. Yuri Zaitzev sem keppti fyrir Sovétríkin árinu eldri en Gústaf klóraði sér í hausnum yfir því hvað þessi íslendingur væri að byrja í 160kg þegar hann var búinn með sýna opnunarlyftu 155kg. Jurgen Ciezki og Valery Ustyuzhin hækka báðir í 160kg í sinni opnunar lyftu líkt og Gústaf. Gústaf fer út á pall, nær ekki alveg að sitja undir stönginni, Ciezki og Ustyzhin klára sýna lyftur. Kaks frá Austur-Þýskalandi klikkar á 160kg í annari tilraun. Zaitzev fer í 160kg og fær lyftuna gilda 2-1 í sinni annari tilraun. Gústaf tekur sýna aðra tilraun, ekki góð og hann er kominn upp að vegg. Kaks fer í sýna þriðju tilraun og nær 160kg í henni. Gústaf fer í þriðja sinn í 160kg og nær loks að sitja undir stönginni en upp fór það ekki og ökklin fór víst alveg við þetta þann daginn og Gústaf lyfti ekki í jafnhendingunni. Eftir mótið fór hann til Álaborgar með Erling þar sem hann átti að keppa í Alborg cup en gat víst lítið beitt sér þar. Snörunin fór svo að Valery Ustyuzhin lyfti 167.5kg, Jurgen Ciezki 165kg en 160kg lyfta Yury Zaitsev dugði honum í bronsið í snörun. Zaitsev lést fyrir rétt um 1 og hálfum mánuði síðan 30.September 2022 og átti hann eftir að verða Ólympíumeistari 1976, Heimsmeistari 76, 78 og Evrópumeistari 1979. En Erling man vel eftir HM bronsinu sem aldrei varð fyrir Gústaf.

Svo skemmtilega vill til að þessi sería er til á youtube: https://www.youtube.com/watch?v=0hMjAcERuW4

Gústaf í lokalyftunni: https://www.youtube.com

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s