Lyftingafólk ársins 2021

Val á lyftingafólki ársins fór fram í Desember, einnig velur sambandið ungmenni ársins í flokki 18-20 ára, 16-17 ára og 15 ára og yngri. Afhending farandbikara mun eiga sér stað á næstu vikum. Sérstaka athygli má vekja á gríðarlega góðum árangri ungmenna sambandsins á árinu 2021.

Valið er samkvæmt 18. Grein í lögum LSÍ.

18. grein,
Stjórn og varamenn hafa atkvæðisrétt um val á lyftingakonu og karli ársins, valið skal ávallt miðast við tímabilið 1. Desember til 30. Nóvember. Ef óskað er eftir því getur kosning verið nafnlaus. Val á lyftingakonu og karli ársins skal miðast við árangur íþróttamannsins á liðnu ári og er þá sérstaklega horft til Sinclair stigatölu sem og árangur á alþjóðlegum mótum. Íþróttamenn koma ekki til greina í vali á lyftingakonu og karli ársins á meðan þeir taka út refsingu og í eitt ár eftir að refsingu lýkur vegna brota á lyfjalögum ÍSÍ, IWF og/eða WADA.

Besta Lyftingakonan

Þuríður Erla á EM Í Moskvu Apríl 2021

Þuríður Erla Helgadóttir LFK (f. 1991) náði besta árangri íslenskrar konu á árinu á Evrópumeistaramóti Senior (fullorðinna) í Moskvu í Apríl en þar lenti hún í 9. Sæti sem er besti árangur sem íslensk kona hefur náð á Evrópumeistaramóti. Mótið var loka úrtökumót fyrir ólympíuleikana í Tokyo sem gerði það enn sterkara. Á mótinu náði hún 83 kg í snörun, 108 kg í jafnhendingu sem gaf henni 191 kg í samanlögðum árangri og 263,2 Sinclair stig sem er besti árangur Þuríðar á móti síðan 2017 og næst besti árangur hennar frá upphafi. Þuríður keppir í -59 kg flokki kvenna og á öll íslandsmet í þeim flokki en þau eru 87 kg í snörun sem hún setti árið 2019 á EM í Georgíu, 108 kg í jafnhendingu og 191 kg í samanlögðu sem hún setti á EM í Moskvu í ár eins og áður sagði. Þuríður keppti aðeins á einu móti á árinu 2021 en hún hefur verið búsett í Sviss undanfarin á og covid-19 takmarkanir settu strik í reikninginn varðandi fjölda móta. Þetta er sjöunda árið í röð sem Þuríður er valin lyftingakona ársins. 

Besti Lyftingamaður

Arnór Gauti 2. frá vinstri á HM Í Uzbekistan

Arnór Gauti Haraldsson LFG (f. 1998) náði besta árangri íslenska karla á árinu á Reykjavík International Games sem haldnir voru í janúar og vann hann það mót. Á mótinu náði hann 136 kg í snörun sem er núgildandi íslandsmet í senior flokki sem og U23, 156 kg í jafnhendingu og 292 kg í samanlögðum árangri sem færði honum 346 Sinclair stig. Í Senior flokki á hann 136 kg í snörun eftir RIG 2021 og 294 kg eftir Sumarmótið 2020. Árangur Arnórs á RIG færði honum keppnisrétt á Heimsmeistaramótinu sem haldið var í Úsbekistan um miðjan Desember og var fyrsta stórmótið sem Arnór fór á í ólympískum lyftingum þar endaði hann í 24.sæti í -89kg flokki karla. Þetta er annað árið í röð sem Arnór hlýtur nafnbótina Lyftingamaður ársins.

Ungmenni ársins 2021

Stúlkur U20 (18-20 ára)

Eygló Fanndal Sturludóttir á HM í Uzbekistan með 92kg í snörun

Eygló Fanndal Sturludóttir LFR [f.2001] hefur líkt keppt oft og víða á árinu alls átta sinnum og þar af fjórum sinnum erlendis allt í mismunandi löndum. Hún náði sínum besta árangri á tímabilinu 1.Des 2020 til 30. Nóvember 2021 á Evrópumeistaramóti Unglinga 20 ára og yngri í Rovaniemi Finnlandi þar sem hún endaði í 6.sæti í -71kg flokki og lyfti 89kg í snörun og 108kg í jafnhendingu. Samanlagður árangur þar var 197kg eða 247.4 Sinclair stig, gríðarlega hörð keppni var í flokknum en silfurverðlaunahafinn lyfti 201kg, brons 200kg, 4.sæti 199kg, og 5.sæti 198kg. Eygló bætti hinsvegar sinn besta árangur á árinu þegar hún lyfti 202kg á Heimsmeistaramóti fullorðinna í Tashkent í Uzbekistan 7.-17. Desember, 92kg í snörun og 110kg í jafnhendingu og sýndi með því að hún er með allra bestu ungmennum í Evrópu. Það er þyngsti samanlagði árangur sem íslensk kona hefur lyft á móti í ólympískum lyftingum. Í Desember 2021 setti hún einnig 6 ný norðurlandamet unglinga, fyrst á Jólamóti LSÍ 5.Desember þar sem hún setti nýtt met í snörun í -76kg flokki með 88kg og svo tvíbætti hún bæði jafnhendingarmetið með því að lyfta 105 og 108kg. Samanlagði árangurinn 193 og 195kg voru norðurlandamet. Loks var 92kg í snörun nýtt norðurlandamet unglinga (20 ára og yngri) í -71kg flokki.

Piltar U20 (18-20 ára)

Brynjar Logi á Evrópumeistaramóti Unglinga 20 ára og yngri 2021

Brynjar Logi Halldórsson LFR (f.2002) hefur verið á mikilli siglingu á árinu, hann keppti á sjö mótum á árinu þar af tveimur erlendis. Besta árangri náði hann á Norðurlandamóti unglinga þar sem hann lyfti 120kg í snörun og 151kg í jafnhendingu í -81kg flokki, 330.7 Sinclair stig. Jafnhendingin var nýtt íslandsmet í fullorðinsflokki og einnig samanlögðum árangri. Á EM U20 ára lyfti hann 115kg í snörun og 143kg í jafnhendingu í -81kg flokki og endaði í 17 sæti á sínu fyrsta stórmóti.

Meyjar U17 (16-17 ára)

Úlfhildur á HM 17 ára og yngri í Jeddah (Saudi-Arabíu)

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir LFR (f.2005) fagnaði góðu gengi á árinu. Besta árangrinum á tímabilinu 1.Des 2020 til 30.Nóvember 2021 náði hún á Norðurlandamóti Unglinga 17 ára og yngri þar sem hún sigraði -71kg flokk kvenna og lyfti 83kg í snörun og 98kg í jafnhendingu, samanlagt 181kg og 222.8 Sinclair stig. Hún keppti einnig á Evrópumeistaramóti unglinga 17 ára og yngri í Póllandi þar sem hún endaði í 6.sæti í -71kg flokk og á HM unglinga 17 ára og yngri í Jeddah í Saudi Arabíu þar sem hún endaði í 9.sæti. Hún toppaði árið 5.Desember þegar hún varð sænskur unglingameistari 20 ára og yngri þegar hún lyfti 85kg í snörun og 100kg í jafnhendingu en Úlfhildur er búsett í Svíþjóð og því gjaldgeng sem keppandi á mótinu.

Sjá umfjöllun mbl um árangur Úlfhildar: https://www.mbl.is/sport/frettir/2021/11/27/gull_og_silfurregn_i_stavern/

Drengir U17 (16-17 ára)

Brynjar Ari á HM 17 ára og yngri í Jeddah (Saudi-Arabíu)

Brynjar Ari Magnússon LFR (f.2004) keppti á tveimur mótum á tímabilinu, norðurlandameistaramóti unglinga 2020 þar sem hann sigraði í flokki 17 ára og yngri í -89kg flokki með því að lyfta 118kg í snörun og 130kg í jafnhendingu (294 Sinclair stig) hann setti einnig íslandsmet 17 ára og yngri í snörun og samanlögðum árangri á mótinu. Hann keppti einnig á HM unglinga 17 ára og yngri í Jeddah í Saudi Arabiu í Október 2021 þar sem hann lyfti 110kg í snörun og 130kg í jafnhendingu og endaði í 12.sæti.

Drengir U15 (15 ára og yngri)

Bjarki Þórðason LFK (f.2006) náði bestum árangri drengja 15 ára og yngri, hann náði bestum árangri á Jólamóti LSÍ þegar hann lyfti 75kg í snörun og 105kg í jafnhendingu í, hann vigtaðist 86.15kg inn í mótið sem gaf honum 212.4 Sinclair stig.

Meyjar U15 (15 ára og yngri)

Bergrós Björnsdóttir UMFS (f.2007) náði frábærum árangri á Norðurlandamóti Unglinga 17 ára og yngri þar sem hún endaði í 2.sæti í -71kg flokki kvenna og lyfti 80kg í snörun og 97kg í jafnhendingu, 177kg samanlagt og 217.4 Sinclair stig. Með þessum árangri endaði hún í 11.sæti yfir stigahæstu íslensku konurnar á árinu 2021 af 61 keppanda og er það magnaður árangur miðað við aldur!

Eygló með Nýtt Norðurlandamet Unglinga í Snörun á HM

Heimsmeistaramótið í ólympískum lyftingum fer fram í Tashkent í Úzbekistan dagana 7-17.Desember.

Fjórir keppendur frá Íslandi tóku þátt í mótinu og hafa þeir nú lokið keppni.

Íslenski hópurinn (f.v.): Ketill (aðstoðarmaður), Arnór, Amalía, Katla, Eygló og Ingi Gunnar (yfirþjálfari)

Fullkomin dagur

Hæst ber að nefna árangur Eyglóar Fanndal Sturludóttir sem gerði sér lítið fyrir og setti nýtt norðurlandamet unglinga (20 ára og yngri) í snörun þegar hún lyfti 92kg í síðustu tilraun. Hún átti einnig frábæra jafnhendingu þegar hún lyfti 110kg sem var bæting á hennar besta árangri um 2kg í jafnhendingu og 5kg í samanlögðum árangri. Hún fór með allar lyfturnar sínar í gegn í seríunni 84-88-92kg og 104-108-110kg í jafnhendingu.

Þessi árangur dugði henni í 20. Sæti í -71kg flokki kvenna. Besta lyftingakona norðurlanda hin Sænska Patricia Strenius vann brons í sama þyngdarflokk en áður hafði hún verið í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í Tokyo fyrr á árinu.

Allar þessar lyftur hjá Eygló eru ný íslandsmet í -71kg flokki kvenna en einnig er samanlagður árangur hennar 202kg þyngsti samanlagði árangur sem íslensk kona hefur lyft yfir alla flokka. Áður hafði Ragnheiður Sara Sigmundsóttir lyft 201kg samanlagt á RIG 2017 með 110kg jafnhendingu og Freyja Mist Ólafsdóttir lyfti 92kg í snörun einnig árið 2017 sem var þá norðurlandamet unglinga í -90kg flokki.

Árangur Eyglóar er sá þriðji stigahæsti frá upphafi/1998 í kvennaflokki: https://results.lsi.is/rankingall/total/f

Þetta var síðasta mót Eyglóar í unglingaflokki en hún hefur keppt á 6 mótum síðustu 3 mánuði í 4 löndum og er því komin í kærkomið jólafrí.

Ný íslandsmet hjá Kötlu

Ísland átti 2 keppendur í -64kg flokki kvenna þær Kötlu Björk Ketilsdóttir og Amalíu Ósk Sigurðardóttur. Amalía hóf leik með því að snara 78kg en náði ekki að fá 82kg og 83kg gild. Katla byrjaði með 79kg í snörun, klikkaði svo á 85kg en tók það í þriðju tilraun sem var nýtt íslandsmet og bæting á meti Amalíu sem var 84kg sett á Norðurlandamóti fullorðinna fyrir mánuði síðan í Noregi.

Amalía féll hinsvegar úr leik í jafnhendingu þegar hún náði ekki að fá opnunarlyftuna 95kg gilda og reyndi við 101kg í þriðju tilraun. Katla opnaði á 98kg, fór síðan í 101kg sem var bæting á hennar eigin íslandsmeti í samanlögðum árangri um 2kg. Í þriðju tilraun reyndi hún við 103kg sem hafði verið jöfnun á íslandsmeti Amalíu í -64kg flokki kvenna en þau fóru ekki upp. Katla endaði í 15. Sæti í -64kg flokki kvenna.

Fyrsta stórmótið

Fyrsta stórmótið hjá Arnór Arnór Gauti Haraldsson keppti á sínu fyrsta stórmóti í lyftingum þegar hann vigtaðist léttur inn í -89kg flokk karla (83.4kg). Hann opnaði örugglega á 128kg, fór síðan í 132kg sem klikkaði og reyndi síðan við 137kg í þriðju tilraun sem hefði verið bæting um 1kg á hans eigin íslandsmeti 136kg sem hann setti á RIG í byrjun árs 2021. Í jafhendingu opnaði hann á 147kg sem hann fékk ekki gilda og fór því aftur í sömu þyngd sem hann kláraði. Hann sleppti síðan þriðju tilraun þar sem hann þurfti að lyfta á eftir sjálfum sér og mikil orka fór í að ná inn gildri jafnhendingu. Arnór endaði keppnina í 24.sæti í -89kg flokki karla.

Ólympískar Lyftingar í Tokyo 2020

Birtur hefur verið keppendalisti fyrir Ólympíuleikana í Tokyo sem fara fram 23.Júlí-8.Ágúst.

Keppt er í 7 þyngdarflokkum í karla og kvenna keppni og í heildina 196 keppendur sem unnu sér inn þátttökurétt.

Sjá keppendalista hér: https://www.iwf.net/wp-content/uploads/downloads/2021/07/Final-List-of-Qualified-Athletes.pdf

Tveir íslenskir keppendur reyndu að vinna sér inn þátttöku á leikunum þau Þuríður Erla Helgadóttir (-59kg flokki kvk) og Einar Ingi Jónsson (-73kg flokki kk) en keppa þurfti á minnst sex úrtökumótum yfir þrjú keppnistímabil og hófst úrtökuferlið með HM 2018 í Túrkmenistan og hefur því staðið yfir í 3 ár. Hvorugt þeirra verður á meðal keppenda í Tokyo en hörð barátta er um sætin í Evrópu þó keppendur neðar en þau á heimslista verði meðal keppenda m.a. frá Eyjaálfu og Afríku.

Einn keppandi frá Norðurlöndunum tryggði sér þátttökurétt hin sænska Patricia Strenius í -76kg flokki kvenna.

Íslandsmeistaramót : Úrslit

Hægt er að skoða heildarúrslit í afreksgagnagrunni sambandsins: https://results.lsi.is/meet/islandsmeistaramot-2020

Lyftingafélag Mosfellsbæjar hélt íslandsmeistaramótið í ólympískum lyftingum í samstarfi við LSÍ Laugardaginn 22.Febrúar en íslandsmótið hefur verið haldið árlega í Mosfellsbænum síðan 2017.

35 keppendur mættu til leiks 16 konur og 18 karlar úr 8 félögum. Lyftingafélag Kópavogs varð Íslandsmeistari í liðakeppninni með 41 stig, Lyftingafélag Garðabæjar í öðru sæti með 29 stig og Stjarnan þriðja með 27 stig.

Eitt íslandsmet í fullorðinsflokki var sett þegar Amaíla Ósk Sigurðardóttir úr lyftingafélagi mosfellsbæjar lyfti 100kg í jafnhendingu í lokatilraun í -64kg flokki kvenna en áður hafði hún lyft 97kg sem var Íslandsmet í flokki 23 ára og yngri. Amalía snaraði mest 75kg og endaði sem stigahæsti keppandi mótsins í kvennaflokki með 230,8 Sinclair stig. Birna Aradóttir úr Stjörnunni varð önnur í -64kg flokki og einnig á Sinclair stigum.

Árni Rúnar Baldursson úr Stjörnunni varð íslandsmeistari í -73kg flokki karla lyfti 115kg í snörun og 135kg í jafnhendingu sem gerðu hann að stigahæsta karl keppenda mótsins.

Erika Eik Antonsdóttir úr Lyftingafélagi Kópavogs setti 2 íslandsmet 17 ára og yngri í -59kg flokki þegar hún snaraði 64kg og lyfti 134kg samanlagt.

Bjarki Þórðarson Lyftingafélagi Kópavogs setti 6 íslandsmet í-96kg flokki 15 ára og yngri þegar hann snaraði 52kg og síðan 56kg, jafnhenti 72kg og síðan 77kg sem samanlagt voru met 128kg og 133kg.

Loks setti Gísli Kristjánsson Lyftingafélagi Reykjavíkur öldungamet (30stk.) í flokkum 35-39 ára, 40-44 ára, 45-49 ára, 50-54 ára og 55-59 ára í -109kg flokk þegar hann snaraði fyrst 121kg og síðan 125kg, jafnhenti fyrst 130kg og síðan 140kg sem voru samanlögð met 255kg og 265kg.

Allir íslandsmeistarar:

-59kg KVK: Íris rut Jónsdóttir (Massi) 60/88 = 148kg samanlagt

-64kg KVK: Amalía Ósk Sigurðardóttir (LFM) 75/100 = 175kg samanlagt

-71kg KVK: Birta Líf Þórarinsdóttir (LFR) 80/96 = 176kg samanlagt

-76kg KVK: Sólveig Þórðardóttir (LFK) 50/64 = 114kg samanlagt

-87kg KVK: Indíana Lind Gylfadóttir (LFG) 64/76 = 140kg samanlagt

-73kg KK: Árni Rúnar Baldursson (STJ) 115/135 = 250kg samanlagt

-81kg KK: Emil Ragnar Ægisson (MAS) 115/150 = 265kg samanlagt

-89kg KK: Alex Daði Reynisson (LFG) 102/135 = 237kg samanlagt

-96kg KK: Árni Freyr Bjarnason (LFK) 120/147 = 267kg samanlagt

-102kg KK: Ingólfur Þór Ævarsson (STJ) 110/145 = 255kg samanlagt

-109kg KK: Gísli Kristjánsson (LFR) 125/140 = 265kg samanlagt

Úthlutun frá afrekssjóð ÍSÍ

Kostnaður LSÍ við mót og fundi erlendis frá árinu 2014 (tölur úr ársreikningum sambandsins) og úthlutun frá afrekssjóð fyrir sömu ár.

Lyftingasamband Íslands fékk 3.800.000 ISK úthlutuðum úr afrekssjóði ÍSÍ nú í dag, og er það um tvöföldun á styrkjum síðustu tveggja ára. LSÍ fékk hæsta styrk allra C-sambanda og blæs þessi styrkur sambandinu byr undir báða vængi en töluverð aukning hefur orðið í umfangi sambandsins síðustu ár eins og sjá má á grafinu hér að ofan.

Frekari upplýsingar um styrkveitinguna má lesa á heimasíðu ÍSÍ:http://www.isi.is/frettir/frett/2020/02/10/ISI-uthlutar-taeplega-462-m.kr.-i-afreksstyrki-/