Í dag keppti Eygló Fanndal Sturludóttir á Senior Evrópumeistaramóti í ólympískum lyftingum í Yerevan í Armeníu. Hún keppti í -71kg flokki.
22 keppendur voru skráðir til leiks en einungis 20 hófu keppni í tveimur hópum.

Eygló náði 6. sæti í samanlögðum árangri ásamt 8. sæti í snörun og 6. sæti í jafnhendingu.

Eygló hóf keppni í dag með 93kg snörun sem fór nokkuð örugglega upp, í annarri tilraun tók hún fallega 96kg snörun og síðan var hækkað í 99kg sem ekki vildu upp í dag.
Þetta skilaði henni 8. sæti í snörun.

Eygló átti best 97kg í snörun á móti frá haustmótinu í september 2022 og endurtók það á EM U23 þegar hún varð Evrópumeistari í október síðastliðnum og er þetta því aðeins einu kílói undir hennar besta besta árangri í snörun.

Í jafnhendingu opnaði Eygló með 116kg. Eitthvað sá miðjudómarinn athugavert og gaf henni rautt, en hinir tveir dómarar hvítt og kviðdómur lét kyrrt liggja svo sú lyfta var gild.
Þá var hækkað í 119kg sem fór örugglega upp. Í lokatilraun lyfti hún svo 121kg sem er Íslandsmet í jafnhendingu og með því jafnaði hún einnig samanlagðan árangur sinn, 217kg í samanlagðri þyngd.
Eygló gerði þá lyftu spennandi fyrir keppendur þar sem örlitið ójafnvægi var að stríða henni eftir jerkið svo hún dansaði og snerist með stöngina, en lyftan gild og Íslandsmet tekið heim frá Armeníu.
Besti árangur Eyglóar fyrir mótið var 120kg jafnhending sem hún náði á Evrópumeistaramóti U23 í oktober í fyrra og einnig samanlögðum 217kg.
Alls hófu 20 keppendur í hennar flokki keppni í dag í tveimur hópum. Eygló keppti í A hóp en í honum eru samtals 10 keppendur. Með henni í hóp voru stórstjörnur á borð við Loredana Elena Toma frá Rúmeníu, en fyrir keppni í dag var hún með besta árangur á ranking lista ólympíusambandsins. En 10 efstu konur á honum í hverjum þyngdarflokki ávinna sér rétt til keppni á næstu Ólympíuleikum. Einnig voru Giulia Miserendino frá Ítalíu sem situr í 7. sæti á ranking listanum fyrir keppni og Sarah Davis frá Bretlandi sem var í 15. sæti með Eygló á keppnis pallinum í dag. Hún var því þarna á meðal stórstjarna, enda stórstjarna sjálf og þetta mót mikilvægur þáttur í að eiga möguleika á að komast á Ólympíuleikana í París 2024.
Loredana Elena Toma sigraði flokkinn nokkuð örugglega með 240kg samanlagðan árangur 110kg í snörun og 130kg í jafnhendingu, en það var 10 kg betri árangur en hjá Giulia Miserendino frá Ítalíu sem varð í öðru sæti. Í þriðja sæti var svo Sarah Davis frá Bretlandi sem var með 226kg samanlagt.

