Eygló Fanndal Sturludóttir í  6. sæti í -71kg flokki á Evrópumeistaramóti í ólympískum lyftingum

Í dag keppti Eygló Fanndal Sturludóttir á Senior Evrópumeistaramóti í ólympískum lyftingum í Yerevan í Armeníu. Hún keppti í -71kg flokki.
22 keppendur voru skráðir til leiks en einungis 20 hófu keppni í tveimur hópum.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Eygló náði 6. sæti í samanlögðum árangri ásamt 8. sæti í snörun og 6. sæti í jafnhendingu.

Mynd: Erna Héðinsdóttir

Eygló hóf keppni í dag með 93kg snörun sem fór nokkuð örugglega upp, í annarri tilraun tók hún fallega 96kg snörun og síðan var hækkað í 99kg sem ekki vildu upp í dag.
Þetta skilaði henni 8. sæti í snörun.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Eygló átti best 97kg í snörun á móti frá haustmótinu í september 2022 og endurtók það á EM U23 þegar hún varð Evrópumeistari í október síðastliðnum og er þetta því aðeins einu kílói undir hennar besta besta árangri í snörun.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Í jafnhendingu opnaði Eygló með 116kg. Eitthvað sá miðjudómarinn athugavert og gaf henni rautt, en hinir tveir dómarar hvítt og kviðdómur lét kyrrt liggja svo sú lyfta var gild.
Þá var hækkað í 119kg sem fór örugglega upp. Í lokatilraun lyfti hún svo 121kg sem er Íslandsmet í jafnhendingu og með því jafnaði hún einnig samanlagðan árangur sinn, 217kg í samanlagðri þyngd.
Eygló gerði þá lyftu spennandi fyrir keppendur þar sem örlitið ójafnvægi var að stríða henni eftir jerkið svo hún dansaði og snerist með stöngina, en lyftan gild og Íslandsmet tekið heim frá Armeníu.

Besti árangur Eyglóar fyrir mótið var 120kg jafnhending sem hún náði á Evrópumeistaramóti U23 í oktober í fyrra og einnig samanlögðum 217kg.

Alls hófu 20 keppendur í hennar flokki keppni í dag í tveimur hópum. Eygló keppti í A hóp en í honum eru samtals 10 keppendur. Með henni í hóp voru stórstjörnur á borð við Loredana Elena Toma frá Rúmeníu, en fyrir keppni í dag var hún með besta árangur á  ranking lista ólympíusambandsins. En 10 efstu konur á honum í hverjum þyngdarflokki ávinna sér rétt til keppni á næstu Ólympíuleikum. Einnig voru Giulia Miserendino frá Ítalíu sem situr í 7. sæti á ranking listanum fyrir keppni og Sarah Davis frá Bretlandi sem var í 15. sæti með Eygló á keppnis pallinum í dag. Hún var því þarna á meðal stórstjarna, enda stórstjarna sjálf og þetta mót mikilvægur þáttur í að eiga möguleika á að komast á Ólympíuleikana í París 2024.    

Loredana Elena Toma sigraði flokkinn nokkuð örugglega með 240kg samanlagðan árangur 110kg í snörun og 130kg í jafnhendingu, en það var 10 kg betri árangur en hjá Giulia Miserendino frá Ítalíu sem varð í öðru sæti. Í þriðja sæti var svo Sarah Davis frá Bretlandi sem var með 226kg samanlagt.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez
2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Þuríður Erla í 13. sæti á Evrópumeistaramóti í -59kg flokki

Í dag keppti Þuríður Erla Helgadóttir á Senior Evrópumeistaramóti í Yerevan í Armeníu.
Hún keppti í -59kg flokki ásamt 22 öðrum keppendum og hafnaði í 13. sæti í samanlögðum árangri, en 14. sæti bæði í snörun og jafnhendingu.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Hún keppti í B-hóp og átti fyrstu lyftu hópsins þegar hún opnaði með 79 kg snörun. Í annarri tilraun lyfti hún 82 kg og reyndi svo í 3. tilraun við 84 kg sem fóru upp, en hún missti svo því miður aftur fyrir sig. Niðurstaðan varð 4. sætið í B hóp í snörun og 14. sætið í heildina.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Í jafnhendingu opnaði Þuríður með 100 kg, tók 102 kg í annarri tilraun sem hún fékk dæmda ógilda. Ingi Gunnar, þjálfari dró þá upp “challenge card” en kviðdómur hélt sig við að lyftan væri ógild eftir að hafa skoðað upptökur. Þuríður lét þetta ekki á sig fá, bætti 2 kg til viðbótar á stöngina og tók 104 kg í síðustu tilraun mjög örugglega og var það í raun besta lyftan hennar í jafnhendingu. Niðurstaðan því 4. sætið í B-hóp og 14. sætið í heild í jafnhendingu.

2023 EWF EWC YEREVAN, ARMENIA Mynd: Isaac Morillas Sanchez

Í samanlögðum árangri lyfti hún 186 kg og hafnaði í 13. sæti í flokknum í heild.

Mynd: Erna Héðinsdóttir


Innilega til hamingju með árangurinn Þurí.

Evrópumeistaramót – Dagskrá og keppendalisti

Dagskrá Evrópumeistaramótsins í Yerevan, Armeníu má finna á heimasíðu Evrópska lyftingasambandsins undir “Start book”.
318 keppendur taka þátt í mótinu að þessu sinni frá 40 löndum. 172 konur og 146 karlar.

Þuríður Erla Helgadóttir keppir þann 17.apríl kl. 14:00 á Armönskum / 10:00 á Íslenskum tíma í -59kg flokki. Alls eru 23 keppendur í flokknum í þremur keppnishópum og keppir Þuríður Erla í B hóp ásamt 6 öðrum, 11 eru í A hóp og 5 í C hóp.


Eygló Fanndal Sturludóttir keppir þann 19. apríl kl. 17:30 á Armönskum / 13:30 á Íslenskum tíma í -71kg flokki. Alls eru 22 keppendur í hennar flokki í tveimur hópum. Eygló keppir í A hóp en í honum eru samtals 10 keppendur. Með henni í hóp eru stórstjörnur á borð við Loredana Elena Toma frá Rúmeníu, Giulia Miserendino frá Ítalíu og Sarah Davis frá Bretlandi. Í B hópunum eru svo 12 keppendur kl. 11:30 á Armönskum / 7:30 á Íslenskum tíma þann 19. apríl.

Áfram Ísland!

Evrópumeistaramót 15.-23. apríl 2023

Senior Evrópumeistaramótið í Ólympískum Lyftingum 2023 mun fara fram í Yerevan, Armeníu dagana 15. – 23. apríl næstkomandi og á Ísland tvo keppendur í kvennaflokki á mótinu. Þær Þuríði Erlu Helgadóttur sem keppir 17. apríl í -59kg flokki og Eygló Fanndal Sturludóttur sem keppir 19. apríl í -71kg flokki. Mótið er hluti af úrtöku ferli fyrir Ólympíuleikana í París en bæði -59kg flokkur og -71kg flokkur eru keppnisflokkar á leikunum.

https://iwf.sport/qualif2024/P2024_Qualification/

Þuríður Erla Helgadóttir (f.1991) úr Lyftingafélagi Kópavogs er reynslumesti kvenn keppandi á Íslandi í ólympískum lyftingum og hefur keppt í greininni síðan 2011.
Þuríður Erla  hefur fjórum sinnum tekið þátt á Evrópumeistaramótum fyrir íslands hönd, árin 2016, 2017,2019 og 2021 en það ár hafnaði hún í 10. Sæti í -59kg flokki með 83kg í snörun og 108kg í jafnhendingu. Hún hefur einnig fjórum sinnum tekið þátt á Heimsmeistaramótum. Árin 2015, 2017, 2018 og 2019 og besti árangur hennar þar var 10. sæti árið 2017 þar sem hún lyfti 86kg í snörun og 108kg í jafnhendingu í -58kg flokki sem þá var. Auk þess keppti hún á Norðurlandamótum árin 2014, 2015, 2018 og 2019 en árið 2015 hampaði hún Norðurlandameistaratitlinum.
Hún hlaut styrk frá Ólympíusamhjálpinni árin 2018-2020 og var nálægt því að komast inn á leikana í Tokyo.
Þarna er gríðarlegur reynslubolti á ferðinni og verður gaman að sjá hvað hún gerir 17. apríl.

https://results.lsi.is/lifter/turidur-erla-helgadottir

Eygló Fanndal Sturludóttir (f.2001) úr Lyftingafélagi Reykjavíkur varð lyftingakona ársins 2022 eftir hreint stórkostlegt ár. Eygló náði hæstu Sinclair stigatölu allra kvenna á árinu 266.9 stig rúmum tíu stigum hærri en Þuríður Erla Helgadóttir sem hampað hefur afrekinu Besta lyftingakonan síðustu 7 árin. Eygló varð Íslandsmeistari í mars í -71kg flokki kvenna og einnig stigahæsti kvenn keppandi mótsins. Hún varð í 9.sæti á Evrópumeistaramótinu í lyftingum í -71kg flokki þegar hún lyfti 205kg samanlagt. Þriðja mótið hennar var Haustmót LSÍ þar sem hún snaraði glæsilegu íslandsmeti í -71kg flokki 97kg. Hún kórónaði síðan glæsilegt lyftingaár með því að verða Evrópumeistari 23 ára og yngri þegar hún lyfti 97kg í snörun og 120kg í jafnhendingu sem voru ný íslandsmet í jafnhendingu og samanlögðum árangri. Þessum árangri hefur áður verið gerð betri skil í alþjóðlegum samanburði hér en Eygló bætti sinn besta árangur um 15kg á árinu 2022.

Í desember 2022 keppti Eygló á Heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fór í Bogota í Kólembíu og  endaði þar í 19.sæti af 39 keppendum í -71kg flokki kvenna. Samanlagður árangur hennar var 213kg sem er 4kg frá Íslandsmeti hennar. Þjálfari Eyglóar, Ingi Gunnar Ólafsson benti á að þetta hefði farið í reynslubankann en Bogota er um 2600m yfir sjávarmáli og höfðu þau enga reynslu af þeim aðstæðum.
Á Íslandsmeistaramóti 2023 í mars síðastliðinn varði hún svo Íslandsmeistaratitil sinn í -71kg flokki þegar hún lyfti samtals 211 kg. Það er spennandi að sjá hvað þessi rísandi lyftingakona gerir á komandi Evrópumeistaramóti  í Yerevan í Armeníu 19. apríl.

https://results.lsi.is/lifter/eyglo-fanndal-sturludottir

Auk keppendanna tveggja fara Ingi Gunnar Ólafsson yfirþjálfari Lyftingasambandsins, Helga Hlín Hákonardóttir formaður Lyftingasambandsins og Unnar Helgason osteopath með keppendum þeim til halds og traust en einnig mun Erna Héðinsdóttir Cat 1. dómari og ritari Lyftingasambandsins fara og starfa sem dómari á mótinu.

Ársþing LSÍ: Fyrsta konan formaður í 50 ára sögu sambandsins

Síðastliðinn sunnudag 26. mars, fagnaði Lyftingasamband Íslands því að 50 ár eru liðin frá stofnun sambandsins. Helga Hlín Hákonardóttir var kjörin formaður og er hún jafnframt fyrsta konan í sögu sambandsins til að taka við embætti formanns.

Eftir hefðbundin þingstörf undirrituðu fráfarandi formaður Magnús Þórðarson og nýkjörinn formaður Helga Hlín, samning við framkvæmdastjóra ÍSÍ, Andra Stefánsson og 2. varaformann Hafsteinn Pálsson, um að Lyftingasamband Íslands fari úr flokki þróunarsambands C upp í alþjóðlegt B samband hjá ÍSÍ.

Lyftingasambandið gerði einnig sjö einstaklinga að Heiðursfélögum LSÍ en allir eiga það sameiginlegt að hafa átt veglegt framlag til framgangs ólympískra lyftinga á Íslandi. Heiðursfélagarnir eru þau Guðmundur Sigurðsson, Birgir Þór Borgþórsson, Guðmundur Helgi Helgason, Gísli Kristjánsson, Hrönn Svansdóttir, Anna Hulda Ólafsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir.

Önnur sem kosin voru í stjórn sambandsins voru Magnús Þórðarson sem tekur sæti varaformanns, Erna Héðinsdóttir sem ritari, Harpa Þorláksdóttir sem gjaldkeri og Hrund Scheving og Ásgeir Bjarnason sem meðstjórnendur, en Ásgeir var jafnframt kjörinn formaður tækninefndar. Í varastjórn eru Eggert Ólafsson, Kári Walter, Birkir Örn Jónsson og Gerald Brimir Einarsson. Fulltrúar íþróttamanna í stjórn eru Katla Ketilsdóttir og Árni Rúnar Baldursson.