Íslandsmótið 2017 fór fram í Íþróttamiðstöðinni Varmá í Mosfellsbæ þann 19. febrúar, í öruggri umsjá Lyftingafélags Mosfellsbæjar. 43 keppendur mættu til leiks að þessu sinni frá 9 félögum.
Hæst bar glæsilegur árangur lyftingafólks ársins, þeirra Þuríðar Erlu Helgadóttur (Ármann) og Andra Gunnarssonar (LFG), en þau urðu stigahæstu keppendurnir og settu bæði Íslandsmet í öllum greinum í sínum flokkum.
Andri tók 160kg í snörun sem er 3kg bæting á fyrra meti og 190kg í jafnhendingu sem er 4kg bæting. Samtals lyfti hann því 350kg sem gefa honum 360,1 Sinclair stig en nýr Sinclair kvarði tók gildi nú um áramótin.
Þuríður Erla keppti í 63kg flokki og bætti Íslandsmet Bjarkar Óðinsdóttur (KFA) í snörun um 1kg er hún tók 84kg og bætti síðan jafnhendingarmet Hjördísar Óskar Óskarsdóttur (FH) um 1kg er hún lyfti 106kg. Sú lyfta var ótrúlega baráttulyfta sem hefur hlotið verðskuldaða athygli. Samanlagt tók Þuríður því 190kg sem gefa henni 260,1 Sinclair stig en það er hæsta Sinclair skor sem íslensk kona hefur náð.
Spennandi og skemmtileg keppni var í mörgum flokkum á mótinu. Í 69kg flokki karla var hörkubarátta milli ungra og upprennandi lyftingamanna, en þar sigraði Brynjar Ari Magnússon (LFH) eftir mikla keppni við Dag Fannarsson (LFM) en báðir lyftu þeir 135kg samanlagt.
Einar Ingi Jónsson (LFR) keppti í annað skipti í 77kg flokki og sigraði með 252kg sem gáfu honum 330,4 Sinclair stig sem var það næst hæsta hjá körlunum. Einar átti tvær tilraunir við Íslandsmet í jafnhendingu, 147kg, en hafði ekki erindi sem erfiði í þetta skiptið.
Í 85kg flokki sigraði Daníel Róbertsson (Ármann) með 265kg sem er bæting á hans besta árangri en Daníel hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu. Hann var jafnframt með þriðji stigahæsti karl mótsins með 321,0 Sinclair stig. Daníel varð einnig meistari í fyrra en þá lyfti hann 242kg samanlagt.
Í 94kg flokki sigraði Goði Ómarsson (LFG) og varði titilinn frá því í fyrra. Hann tók 258kg í samanlögðu sem er 10kg meira en á mótinu í fyrra og þá átti hann einnig tilraun við Íslandsmet, 159kg, í lokalyftunni í jafnhendingu sem tókst ekki að þessu sinni.
Ingólfur Þór Ævarsson (KFA) varði titilinn í 105kg flokknum er hann lyfti 285kg samanlagt, 11kg meira en hann lyfti í fyrra.
Í 58kg flokki kvenna sigraði Sigríður Jónsdóttir (LFK).
Eins og áður hefur komið fram sigraði Þuríður Erla Helgadóttir (Ármann) í 63kg flokki en það var fjölmennasti flokkur mótsins með 9 keppendur. Aníta Líf Aradóttir (LFR) varð önnur með 177kg samanlagt sem gaf henni 232,3 Sinclair stig sem var það næst hæsta hjá konunum.
Lilja Lind Helgadóttir (LFG) varði titilinn í 69kg flokki eftir mikla baráttu við Viktoríu Rós Guðmundsdóttur (LFH). Lilja Lind lyfti 162kg samanlagt en Viktoría Rós 159kg en úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu lyftu.
Hörð keppni var einnig í 75kg flokki kvenna en þar skildi einunigs 1kg milli gulls og silfurs. Sigurvegari varð Soffía Bergsdóttir (Ármann) með 154kg en Birta Hafþórsdóttir (LFH) varð önnur með 153kg.
Í fyrsta sinn var keppt í nýjum þyngdarflokkum kvenna en reglur IWF breyttust um áramótin og í stað +75kg flokks koma 90kg og +90kg flokkar. Sesselja Sigurðardóttir (KFA) er fyrsti Íslandsmeistarinn í 90kg flokknum en hún lyfti 138kg samanlagt.
Öll úrslit má finna á http://results.lsi.is/meet/islandsmeistaramotid-2017