Anna Hulda með nýtt íslandsmet í jafnhendingu

Anna Hulda Ólafsdóttir lauk í dag keppni á Evrópumeistaramótinu í Ólympískum Lyftingum sem fram fór í Tel Aviv í Ísreal. Anna Hulda keppti eins og áður hefur komið fram hér á síðunni í B-flokki 63kg kvenna. Hún vigtaðist léttust inn allra kvenna í 63kg flokki eða 61,58kg.

Anna Hulda hitar upp baksviðs í Tel Aviv

Anna Hulda hitar upp baksviðs í Tel Aviv

Hún endaði í 8.sæti af 10 keppendum í sínum flokki og í 14.sæti af 18 keppendum í heildar keppninni. Hún hóf leikinn með öruggri lyftu í snörun 70kg og fór því næst í 73kg en íslandsmet hennar er 75kg frá því á Jólamóti LSÍ 2013. Tvær tilraunir með 73kg fóru ekki í gegn en þyngdin virkaði létt í höndunum á henni og ekki er ólíklegt að smá stress hafi slegið hana út af laginu. Gott dæmi um hversu auðvelt það er að missa lyftur er að sigurvegarinn í 63kg flokki kvenna hin rússneska Tima Turieva missti byrjunar þyngdina sína tvisvar sinnum áður en hún loks lyfti henni í þriðju tilraun. Tveir keppendur í A-flokki duttu einnig út í jafnhendingu þar sem þeir náðu ekki gildri lyftu í jafnhendingu.

Anna og Sarah í Tel Aviv

Anna og Sarah í Tel Aviv

En Anna var ekki að baki dottin, hún háði nokkuð harða keppni við hina dönsku Söru Krarup sem einnig keppir í Crossfit eins og Anna. Anna byrjaði því á að lyfta 87kg og fór síðan í 90kg til að tryggja sér sigur á henni og loks í 94kg sem var tilraun til nýs íslandsmet og bæting um 1kg á meti Þuríðar Erlu Helgadóttur frá því á RIG leikunum í janúar. Sú lyfta fór létt upp og Anna lauk því leik með glæsibrag með 164kg í samanlögðum árangri sem er 3kg frá íslandsmeti hennar í samanlögðum árangri í 63kg flokki kvenna en Anna hefði farið upp um eitt sæti hefði hún bætt það met. Hún fagnaði metinu með heljarstökki sem vakti lukku áhorfenda.

Samsett mynd sem sýnir m.a. íslandsmets lyftu Önnu

Samsett mynd sem sýnir m.a. heljarstökk Önnu eftir íslandsmetið

Þriðji fulltrúi norðurlandaþjóðanna hin finnska Anna Everi ein besta lyftingakona norðurlandanna ætlaði sér stóra hluti en hún fór aðeins með opnunarþyngdir sínar í gegn en lyfti þó 186kg í samanlögðu, það dugði henni í 6.sætið í B grúppunni.

Anna Hulda með nýtt íslandsmet 94kg. Ljósmyndari: Kari Kinnunnen

Anna Hulda með nýtt íslandsmet 94kg. Ljósmyndari: Kari Kinnunnen

Heildar úrslit má sjá á: http://www.easywl.com/results/scoreboard.php?sessid=330

Anna Hulda lyftir á morgun

Anna Hulda Ólafsdóttir keppir á morgun á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem fram fer í Tel Aviv í Ísrael. Hún mun keppa klukkan 11:30 að staðartíma en það er klukkan 8:30 á Íslandi.

Hægt verður að fylgjast með beint í gegnum eftirfarandi síðu: http://www.easywl.com/results/index.php?idgara=142

Anna Hulda í upphitunaraðstöðunni í Tel Aviv

Anna Hulda í upphitunaraðstöðunni í Tel Aviv

Undirbúningur fyrir mótið hefur gengið vel og mun þessi reynsla nýtast Önnu í framtíðinni.

Listi yfir lyftingakonur sem keppa við Önnu Huldu

Listi yfir lyftingakonur sem keppa við Önnu Huldu

Frekari upplýsingar um mótið má finna á síðu evrópskalyftingasambandsins: http://ewfed.com/news_det.php?id=65