Afrekaskrá Lyftingasambands Íslands

Í lok vetrar gekk lyftingasambandið til samninga við Klaus Jensen um þróun á afrekaskráningarkerfi. Síðstu mánuði hefur undirritaður sett inn yfir 4000 árangra allt frá árinu 1963 til dagsins í dag.

Misvel hefur verið staðið að skráningu árangra í gegnum tíðina en stuðst hefur verið við heimildir frá Ársskýrslum LSÍ sem og gömlum blaða/fréttatilkynningum. Allar ábendingar um mót sem vantar inn / rangar innfærslur / fæðingarár iðkennda osfr. skulu sendast á skraningar@lsi.is .

Í heildina hefur verið skráð 141 mót sem haldin hafa verið innanlands og 99 mót sem íslenskir keppendur hafa keppt á erlendis og sjá má skiptinguna á grafinu hér að neðan.

Mót í lyftingum í afreksgagnagrunni LSÍ 14.5.2014

Mót í lyftingum í afreksgagnagrunni LSÍ 14.5.2014

Síðan er að mestu leiti á ensku en það ætti ekki að koma að sök, eftirfarandi valmyndir eru mögulegar:

Meets (þýð: Mót)
– Hér er hægt að velja þau mót þar sem árangur hefur verið skráður, við getum sett inn myndir frá fyrri mótum og má endilega senda þær á skraningar@lsi.is

Lifters (þýð: Lyftingamenn/konur)
– Hér er hægt að velja eftir stafrófsröð þá lyftingamenn og konur sem skráð eru í gagnagruninn, ef það vantar fæðingarár þá má endilega koma því til skila á skraningar@lsi.is. Hægt er að sjá öll mót sem viðkomandi keppandi hefur keppt á.

Clubs (þýð: Klúbbar/Félög)
– Listi yfir lyftingaklúbba/félög, þessi listi uppfærist sjálfvirkt frá árinu 2014. Ef þú vilt láta skrá þig í einhvern sérstakan klúbb eða þú vilt að klúbburinn þinn birtist þá sendir þú tölvupóst á skraningar@lsi.is

Rankings (þýð: Röðun)
– Hér er keppendum raðað upp samkvæmt sinclair tölu fyrir hvert ár. Þessi listi er m.a. hafður til hliðsjónar við val á lyftingamanni/konu ársins.

Records (þýð: Met)
– Hér er haldið utan um öll met sem skilgreind eru af IWF, þ.e. karla og kvenna (e. Senior), ungmenna (13-17 ára) og unglinga (15-20 ára). Einnig verður nú haldið yfir met í öllum öldungaflokkum karla og kvenna. Metin eru reiknuð sjálfkrafa frá þeim mótum sem eru í gagnagrunninum og því mikilvægt að öll mót séu skráð svo metin séu rétt.

Einnig er hægt að sjá met fyrir aldursbilið 1928-1972, 1972-1976 , 1977-1992, 1993-1997 og loks 1998-.

Að lokum vill Lyftingasambandið þakka þeim styrktaraðilum sem styrktu gerð síðunnar, ennþá er pláss fyrir einn aðila að auglýsa á síðunni.

Hægt er að fara á síðuna á http://results.lsi.is

Anna Hulda á leið á Evrópumeistaramótið

Anna Hulda Ólafsdóttir mun keppa fyrir ísland á EM 2014 sem fram fer í Ísrael dagana 5. til 12. Apríl. Anna er skráð til keppni í -63kg flokk kvenna og mun hún væntanlega keppa á mánudeginum 7. Apríl. Lárus Páll Pálsson formaður Lyftingasamband Íslands mun fylgja Önnu Huldu til Tel Aviv.

Image
Hér er Anna við æfingar í nýjum landsliðsbúningi LSÍ

Nokkuð margir keppendur fara á mótið frá norðurlöndunum eða um 19 talsins, 9 karlar og 10 konur að Önnu meðtaldri. Hún mun væntanlega mæta hinni dönsku Söru Troelsen Krarup og hinni finnsku Önnu Everi í mínus 63kg flokki.

Eftirtaldir keppa fyrir hönd norðurlandanna á EM:

Land     Kyn          Nafn                                      Flokkur
ÍSL        KVK        ÓLAFSDÓTTIR, Anna H.      -63kg

NOR     KK         TOLLEFSEN, Kim Eirik         +105kg
NOR     KVK       KASIRYE, Ruth                      -69kg

SVÍ        KVK        ROOS, Anelica                     -58kg
SVÍ        KVK        HANSSON, Carita                 -69kg

DEN      KVK        KRARUP, Sarah T.                -63kg
DEN      KVK        HAUGE, Karina                     -69kg
DEN      KK        KRING, Tim                             -77kg
DEN      KK        DARVILLE, Simon K.              -85kg
DEN      KK        NORGAARD, Jeppe                -94kg

FIN        KVK        KUKKONEN, Sini                 -48kg
FIN        KVK        Everi, Anna                           -63kg
FIN        KVK        VUOHIJOKI, Anni                 -69kg
FIN        KVK        ILMARINEN, Meri                 -75kg
FIN        KK        TOKOLA, Milko                      -85kg
FIN        KK        ANTTI-ROIKO, Miika              -94kg
FIN        KK        RETULAINEN, EEro              -94kg
FIN        KK        ROININEN, Teemu               +105kg
FIN        KK        EERO, Oja                           +105kg

Hægt er að sjá heildar keppendalistann á mótinu hér: http://www.ewfed.com/documents/2014/TelAviv_2014/Draft_Final_Entries_TelAviv_2014.htm

Drög af dagskrá er hægt að sjá hér: http://www.ewfed.com/documents/2014/TelAviv_2014/TimeTable_TelAviv_2014.pdf

Danska og finnska meistaramótið um helgina

Danska meistaramótið
Danska meistaramótið fer fram í Slagelse um helgina, 72 karlar eru skráðir til leiks og 37 konur.

Íslendingar eiga einn keppanda á mótinu Guðmund Borgar Ingólfsson sem keppir undir merkjum IK99, hann keppir í 85kg flokki og snaraði í janúar á CWC 88kg og jafnhenti 113kg.

Bestu lyftingamenn dana eru skráðir til leiks m.a. Tim Kring 24ára og keppandi í 77kg flokki hann snaraði 126kg og jafnhattaði 153kg sem dugði honum til sigurs á CWC í janúar.

Hægt er að nálgast skráningarlista á slóð danska lyftingasambandsins http://www.weightlifting.dk

Finnska meistaramótið
Finnska meistaramótið fer einnig fram um helgina í Pori, 70 karlar eru skráðir og 55 konur. Fjöldi finna er skráður til leiks en greinarhöfundur er mest spenntur á að fylgjast með eftirfarandi keppendum;
í karlaflokki Milko Tokola (85kg),Eero Retulainen (94kg),  Miika Antti-Roiko (105kg), Eero Oja (+105kg) og Teemu Roininen (+105kg). Í kvennaflokki ber helst að nefna Anni Vuohijoki (69kg), Anna Everi (69kg) og Meri Ilmarinen (75kg).

Hægt er að sjá keppendalistann á heimasíðu finnska lyftingasambandsins:
http://www.painonnosto.fi/portal/fi/liitto/uutiset/?bid=1816&area=2

Streymt verður frá finnska meistaramótinu í gegnum eftirfarandi heimasíðu: http://bambuser.com/channel/parkanonpuntti

Ný félög innan LSÍ

Samhliða fjölgun iðkanda í Ólympískum lyftingum síðustu ár hefur félögunum fjölgað jafnt og þétt. Núna nýlega bættust við þrjú ný félög sem voru samþykkt innan Lyftingasambands Íslands. Þau eru;  Lyftingafélag Garðabæjar (LFG), Lyftingafélag Kópavogs (LFK) og KF Víkingur.  Núna eru félögin því orðin tíu innan LSÍ sem er gleðitíðindi fyrir íþróttina. Þessi félög eru með frábært starf.  Ef þú hefur áhuga á því að æfa lyftingar, eða kynna þér starfið frekar er um að gera að hafa samband. Lyftingadeild ÍR er eins og er ekki með starfsemi.

Lyftingafélög innan LSÍ

Lyftingafélag Reykjavíkur (LFR) –  Heimasíða
Lyftingafélag Garðabæjar (LFG) – Heimasíða
Lyftingafélag Kópavogs (LFK)
Kraftlyftinga/lyftingafélag Akureyrar (KFA) – Heimasíða
KF Víkingur (Ísafjörður)
Lyftingadeild Ármanns – Heimasíða
Lyftingadeild FH – Heimasíða
Ungmennafélag Njarðvíkur – Heimasíða
Ungmennafélagið Skallagrímur (Borganes) – Heimasíða
Lyftingadeild ÍR (Liggur niðri eins og er)

Íslandsmet hafa verið uppfærð eftir RIG

Íslandsmet hafa verið uppfærð, fjölmörg met voru sett á mótinu sem og tilraunir til nýrra meta.

58kg flokkur kvenna
Einn erlendur keppandi var í kvennaflokki Sandra Instefjord Trædal sem lyfti 60kg í snörun og 79kg í jafnhendingu, það skilaði henni 8. sæti í heildarstigakeppni kvenna enda gríðalega hörð keppni.

63kg flokkur kvenna
Anna Hulda Ólafsdóttir átti tvær góðar tilraunir við nýtt íslandsmet í snörun 76kg, hún ákvað að taka stökkið og fara beint í annari lyftu í íslandsmets tilraun. Það átti eftir að koma í bakið á henni í jafnhendingu þar sem Þuríður Erla Helgadóttir setti nýtt íslandsmet í lokatilraun 93kg og varð með þeirri lyftu stigahæsta lyftingakona mótsins. Anna Hulda átti einnig tilraun við 93kg sem ekki fór upp. Björk Óðinsdóttir keppti á sínu fyrsta lyftingamóti og snaraði 73kg, hún jafnhenti einnig 90kg og átti síðan mjög góða tilraun við 94kg sem hefði verið bæting á ný settu íslandsmeti Þuríðar. Sannarlega hörð keppni í þessum flokk og varð það svo að Þuríður sigraði Björk á líkamsþyngd en báðar lyftu þær 163kg. Anna Hulda varð svo í þriðja sæti með 161kg í samanlögðum árangri aðeins 0,2 stigum á eftir Björk.

69kg flokkur kvenna
Fjórar öflugar konur voru skráðar til leiks í 96kg flokknum, Katrín Tanja Davíðsdóttir byrjaði á 74kg í opnunarþyngd í snörun sem hún lyfti örugglega, því næst fór hún í nýtt íslandsmet 78kg sem er bæting á hennar eigin meti um 2kg. Hún endaði síðan á því að eiga góða tilraun við 81kg en sú tilraun fór ekki upp. Annie Mist Þórisdóttir byrjaði á að bæta met Katrín Tönju í samanlögðum árangri strax í annari lyftu í jafnhendingu þar sem hún jafnhenti 92kg og setti nýtt met 167kg. Hún var hvergi nærri hætt því hún jafnhenti einnig  95kg sem var nýtt íslandsmet kvenna í -69kg flokki í samanlögðum árangri 170kg.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir keppti á sýnu fyrsta lyftingamóti og lyfti 71kg í snörun og 91kg í jafnhendingu. Fjórða varð Birgit Rós Becker sem bætti sinn besta árangur í jafnhendingu um 5kg þegar hún lyfti 85kg í síðustu tilraun.

75kg flokkur kvenna
Hildur Grétarsdóttir bætti sinn besta árangur í snörun um 2kg og jafnhendingu um 2kg þegar hún snaraði 65kg og jafnhenti 80kg.

75kg+ flokkur kvenna
Lilja Lind Helgadóttir sem verður 18ára á árinu gerði gott mót eftir að hafa misst 76kg í snörun í annari tilraun lét hún hætta stöngina í 80kg sem hún tók leikandi í þriðju tilraun og bætti íslandsmet sitt um 10kg. Lilja Lind hafði gert atlögu að norðurlandameti meyja í snörun á jólamóti LSÍ en það stendur í 75kg. Hún keppir næstu 3 árin í stúlknaflokki (20 ára og yngri) og stendur norðurlandametið þar í 84kg sem hin finnska Meri Ilmarinen á. Lilja Lind opnaði í jafnhöttun á 88kg sem er 2kg frá íslandsmeti hennar í jafnhendingu en með þeirri lyftu bætti hún samanlagðan árangur sinn um 8kg. Hún fór síðan í bætinguna 93kg sem var um leið nýtt íslandsmet og að lokum lyfti hún 96kg sem setti Íslandsmet hennar í samanlögðum árangri í 176kg. Hún er því sú kona sem lyftur hefur mestri þyngd yfir allra þyngdarflokka bæði í snörun og jafnhendingu, sannarlega glæsilegt.

85kg flokkur karla
Öllu færri íslandsmet voru sett í karlaflokki en Björgvin Karl Guðmundsson hélt þó uppi heiðri strákanna með því að bæta íslandsmet sitt í snörun um 1kg í lokatilrauninni 112kg. Björgvin vigtaðist aðeins 80kg slétt inn á mótsdag. Í jafnhendingu opnaði hann á 132kg og fór síðan strax í tilraun til nýs íslandsmets 141kg sem hann rétt missti tvisvar sinnum. Hann bætti samt sem áður sinn besta árangur samanlagt um 3kg og fór í fyrsta sinn yfir 300 Sinclair stig og bætist þar í hóp góðra manna.

105kg flokkur
Einn keppandi var mættur í 105kg flokk karla, 21 árs norðmaður Kristian Helleren. Hann lyfti 129kg í snörun og 155kg í jafnhendingu sem dugði honum í annað sætið í stigakeppninni. Hann á best 135kg í snörun og 164kg í jafnhendingu og var því töluvert frá sínu besta.

105kg+ flokkur
Fjórir keppendur voru mættir í „súperinn“, fremstur í flokki fór Gísli Kristjánsson sem var að keppa aðra helgi í röð eftir að hafa keppt á CWC síðustu helgi í Kaupmannahöfn. Hann opnaði á 145kg í snörun en hafði ekki 150kg í annari og þriðju tilraun. Í jafnhendingunni lyfti hann 165kg og 170kg og tryggði sér sigur í karlaflokki með 335 stigum. Andri Gunnarsson ætlaði sér stóra hluti og opnaði á 130kg í snörun sem er jafnt hans besta árangri, hann átti síðan góðar tilraunir við 135kg en það fór ekki upp. Í jafnhendingu lyfti hann 160kg og átti síðan stór góða tilraun við 170kg í annari tilraun, hann reyndi síðan aftur við þá þyngd en hún reyndist ofviða. Jon Peter Ueland hafði keppt helgina áður og bætt sinn besta árangur þegar hann lyfti 130kg í snörun og 162kg í jafnhendingu, hann átti ekki góðan dag og endaði með því að lyfta 125kg í snörun og 154kg í jafnhendingu. Báðir norsku keppendurnir koma frá Vigrestad þar sem norðurlandamót fullorðinna verður haldið í ár. Árni Björn Kristjánsson byrjaði brösulega með því að missa 115kg í snörun, mistök áttu sér stað á ritaraborði í annari tilraun hjá honum og var honum leyft að taka auka tilraun í snörun. Hann nýtti sér það og snaraði 115kg og loks 120kg sem var bæting. Í jafnhendingu þá opnaði Árni á 140kg og fór síðan í 148kg sem var bæting og endaði 152kg.

Lyftingamaður og lyftingakona ársins!

Lyftingasamband Íslands hefur valið lyftingamann og lyftingakonu ársins og hljóta titilinn þetta árið likt og í fyrra Gísli Kristjánsson og Anna Hulda Ólafsdóttir sem bæði keppa undir merkjum Lyftingafélags Reykjavíkur (LFR).

Gísli Kristjánsson

Gísli Kristjánsson er einn reyndasti og farsælasti lyftingarmaður Íslands um þessar mundir. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og hefur á sínum ferli keppt víða um heim og hefur meðal annars orðið Norðurlandameistari árið 2001. Gísli er 49 ára og sýnir það vel hversu lengi er hægt að endast í íþróttinni á afreksstigi. Hann á heilmikið eftir og stefnir á mót erlendis á næsta ári. Á árinu 2013 keppti Gísli á 3 mótum; Reykjavík International Games (RIG), Íslandsmótinu í ólympískum lyftingum og norðurlandamótinu í ólympískum lyftingum. Gísli fékk silfur verðlaun í heildarstigakeppni á RIG, gull verðlaun á Íslandsmótinu og brons verðlaun í +105kg flokki á norðurlandamótinu. Besti árangur Gísla á árinu var 150kg í snörun og 175kg í jafnhendingu eða 325kg samtals, þetta gefur honum 348,22 Sinclair stig skv. stigatöflu. Á viðmiðunarlista alþjóðalyftingasambandsins (IWF) er Gísli í 67-69. sæti á heimslista í +105kg flokki.

Gísli Kristján

Anna Hulda Ólafsdóttir

Anna Hulda hefur æft ólympískar lyftingar í rúm 2 ár og er nú valin annað árið í röð lyftingakona ársins. Anna Hulda hélt uppteknum hætti frá fyrra ári og er stigahæsta konan sem keppti í ólympískum lyftingum árið 2013. Hún keppti á alls þremur mótum á árinu; Reykjavik International Games (RIG), Íslandsmótinu í ólympískum lyftingum og á sumarmóti LSÍ. Hún sigraði öll þessi mót og setti alls 8 Íslandsmet. Besti árangur hennar var í 58kg flokki á RIG; 68kg í snörun, 86kg í jafnhendingu samanlagt 154kg sem gefa henni 217,9 Sinclair stig. Í 63kg flokki náði hún bestum árangri á sumarmóti LSÍ; 70kg í snörun, 90kg í jafnhendingu samanlagt 160kg sem gefa henna 214,69 Sinclair stig. Á viðmiðunarlista alþjóðalyftingasambandsins er Anna Hulda í 104-105. sæti á heimslista í 58kg flokki og 89-91. sæti í 63kg flokki. Anna Hulda keppti einnig á Evrópuleikunum og Heimsleikunum í CrossFIT. Hún hefur einnig starfað sem varaformaður lyftingasambands íslands fyrir árið 2013 og þakkar sambandið henni vel unnin störf.

Anna Hulda

Árið hefur verið  viðburðarríkt hjá lyftingasambandinu sem fagnaði 40 ára starfsafmæli. Það hélt meðal annars Norðurlandamót á Akureyri í fyrsta sinn í 20 ár í samstarfi við KFA þar sem Ísland eignaðist einn gullverðlaunahafa í 56kg flokki (Darri Már Magnússon) og einnig vann karlaliðið gullverðlaun í liðakeppni. Ísland eignaðist líka Norðurlandameistara unglinga yngri en 17 ára í kvennaflokki á norðurlandamóti unglinga í Danmörku (Lilja Lind Helgadóttir). Alls voru sett 26 ný íslandsmet í fullorðinsflokkum og 14 íslandsmet í unglingaflokkum á árinu.