Lög Lyftingasambands Íslands 20.mars 2022
LÖG LYFTINGASAMBANDS ÍSLANDS (20.mars 2022)
1. grein
Lyftingasamband Íslands (LSÍ) er æðsti aðili um öll sérfræðileg mál ólympískra lyftinga innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
2. grein
Lyftingasamband Íslands er samband lyftingaráða og héraðssambanda og eru öll þau félög innan ÍSÍ, er iðka og keppa í ólympískum lyftingum, aðilar að LSÍ.
3. grein
Starf LSÍ er í megin atriðum:
a)Að vinna að stofnun nýrra félaga, sérráða og efla á annan hátt ólympískar lyftingar í landinu
b)Að setja nauðsynlegar reglur, löggilda dómara, ráðstafa mótum og staðfesta met.
c)Að vera fulltrúi ólympískra lyftinga á Íslandi gagnvart útlöndum og sjá um að reglur greinarinnar sé í samræmi við alþjóðareglur.
4. grein.
Málefnum LSÍ stjórna:
a)Lyftingaþingið
b)Stjórn LSÍ
5. grein.
Lyftingaþingið fer með æðsta vald í málefnum LSÍ. Þingið sitja fulltrúar frá þeim aðilum, sem mynda LSÍ. Fulltrúafjöldi hvers aðila fer eftir tölu virkra lyftingaiðkenda í skráningarkerfi ÍSÍ, þannig að fyrir allt að 25 menn koma 2 fulltrúar og síðan 1 fyrir hverja 25 eða brot úr 25 upp í allt að 100 iðkendur og þá 1 fulltrúi að auki fyrir hverja 50 iðkendur þar fram yfir.
Þingið skal árlega háð í fyrir 30.mars. Skal boða það bréflega með minnst eins mánaða fyrirvara. Málefni, sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu, skulu tilkynnt stjórn LSÍ minnst 21 degi fyrir þingið. Þá skal stjórn LSÍ tilkynna sambandsaðilum dagskrá þingsins, ásamt tillögum og lagabreytingum, sem borist hafa, í síðasta lagi 14 dögum fyrir þing. Lyftingaþingið er lögmætt, ef löglega hefur verið til þess boðað.
6. grein.
Á lyftingaþinginu hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, en auk þeirra eiga rétt á þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:
a)Stjórn LSÍ, varastjórn og skoðunarmenn.
b)Framkvæmdastjórn ÍSÍ.
c)Fastir starfsmenn ÍSÍ og LSÍ.
d)Fulltrúar lyftingadómarafélaga.
e)Allir nefndarmenn LSÍ.
f)Fulltrúi frá hverju íþróttahéraði ÍSÍ sem hefur iðkun ólympískra lyftinga innan sinna vébanda
Auk þess getur stjórn LSÍ boðið öðrum aðilum þingsetu, ef hún telur ástæðu til. Aðeins sá, sem er í félagi, sem iðkar ólympískar lyftingar innan sérráðs eða héraðssambands, er kjörgengur fulltrúi þess á lyftingaþingi. Hver fulltrúi hefur aðeins 1 atkvæði.
Þegar langt og dýrt er að sækja þingið, eða annar fulltrúi veikist eða forfallast á síðustu stundu frá að sækja þingið, þá má heimila að fulltrúi fari með fleiri en 1 atkvæði, en aðeins með atkvæði þess aðila, sérráðs eða héraðssambands (félags), sem hann er fulltrúi fyrir. Umboð sem jafnframt er beiðni til þingsins um að fulltrúi megi fara með fleiri en eitt atkvæði verður að vera skriflegt og vera frá stjórn hlutaðeigandi sambandsaðila.
7. grein.
Aukaþing má halda, ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Alla boðunar og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings.
Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta þingi á undan, og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa, sem er látinn, veikur eða fluttur úr héraðinu eða forfallaður á annan hátt.
Á aukaþingi má ekki gera laga- og leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt lyftingaþing.
8. grein.
Störf Lyftingaþings eru:
1)Þingsetning.
2)Kosin kjörbréfanefnd 3ja manna.
3)Kosning fyrsta og annars þingforseta og tveggja þingritara.
4)Kosnar nefndir þingsins:
a)Fjárhagsnefnd.
b)Laga- og leikreglnaefnd
c)Allsherjarnefnd.
d)Kjörnefnd.
Nefndir þessar eru skipaðar 3 mönnum hver
5)Fráfarandi stjórn gefur skýrslu sína
6)Gjaldkeri leggur fram, endurskoða reikninga sambandsins til samþykktar.
7)Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
8)Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar þær, sem fram hafa komið.
9)Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnarinnar, svo og önnur mál er þingið vill ræða.
ÞINGHLÉ
10)Nefndarálit og tillögur og atkvæðagreiðsla um þær.
11) Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna og fulltrúa á Íþróttaþing.
a) Formaður
b) 2 úr fráfarandi stjórn.
c) 2- 3 meðstjórnendur
d) 2 fulltrúar íþróttamanna (1kk og 1kvk)
e) 4 einstaklinga í varastjórn
f) 2 skoðunarmenn
g) Fulltrúi/ar á Íþróttaþing
12)Kosinn formaður tækninefndar
13)Önnur mál.
14)Þingfundargerðir lesnar og staðfestar.
15)Þingslit.
Fái fleiri, en þeir sem kjósa á, jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Þingið getur með 2/3 atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál, sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum (skv. 5.gr. 3ju máls gr.).
Ársskýrslu LSÍ, sem stjórnin skal leggja fjölritaða fyrir þingið, svo og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum LSÍ, innan tveggja mánaða frá þingslitum.
9. grein.
Stjórn LSÍ skipa 7 einstaklingar, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, 1-2 meðstjórnendur og tveir fulltrúar íþróttamanna (1kk og 1kvk). Skal kjósa bundinni leynilegri kosningu til eins árs í senn nema fulltrúar íþróttamanna sem er til tveggja ára. Tveir einstaklingar úr fráfarandi stjórn sitja áfram í næstu stjórn. Formaður er kosinn fyrst. Þá eru kosnir 2 einstaklingar úr síðustu stjórn eftir því hvort formaður var endurkjörinn. Loks eru kosnir 3 einstaklingar til viðbótar, nema 2 sé skipt um formann. Meðstjórnendur skipti með sér verkum. Kjósa skal einnig 4 einstaklinga í varastjórn og taki þeir sæti ef aðalmenn forfallast og koma inn í sömu röð og þeir voru kosnir. Stjórninni er heimilt að ráða launað eða ólaunað starfsfólk. Aðsetur sambandsins er í Reykjavík. Reikningsár LSÍ er miðað við almanaksárið. Einstaklingar þurfa að hafa náð 18. aldursári til að vera gjaldgengir í stjórn. Ritari er eini stjórnarmeðlimur sem má þiggja laun fyrir stjórnarstörf, þá er gert ráð fyrir að amk 50% launaðri vinnu hans sé varið til afreksstarfs LSÍ.
10. grein.
Starfssvið stjórnar LSÍ er:
a)Að framkvæma ályktanir Lyftingaþingsins.
b)Að vinna að eflingu ólympískra lyftinga í landinu.
c)Að semja leikreglur og reglugerðir fyrir ólympískar lyftingar.
d)Að senda framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur og tilkynningar.
e)Að líta eftir því, að lög og leikreglur LSÍ séu haldin.
f)Að setja nauðsynleg bráðabirgðaákvæði.
g)Að raða niður og ákveða stað og tíma fyrir landsmót. Það skal að jafnaði gera fyrir hver áramót og þá í samráði við stjórnir sérráða og framkvæmdastjórn ÍSÍ.
h)Að úthluta þeim styrkjum til ólympískra lyftinga, sem LSÍ fær til umráða.
i)Aô koma fram erlendis fyrir hönd ólympískra lyftinga í landinu.
11. grein.
Formaður LSÍ boðar stjórnarfund og stjórnar þeim. Stjórn er ályktunarbær ef minnst fjórir meðlimir sækja löglega boðaðan stjórnarfund.Afl atkvæða ræður úrslitum máls. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Óski þrír eða fleiri stjórnarmenn eftir stjórnarfundi skal til hans boða eigi síðar en 7 dögum eftir að ósk þar að lútandi hefur verið borin fram.
12. grein,
Lyftingaráðin (héraðssamböndin) eru milliliður milli félaga sinna og stjórnar LSÍ. Þau skulu senda henni allar skýrslur um mót, sem haldin eru innan umdæmisins. Þessar skýrslur skulu sendar innan mánaðar eftir að mótinu lýkur.
13. grein,
Stjórn LSÍ hefur frjálsan aðgang að öllum mótum og æfingum í ólympískum lyftingum, sem fram fara innan vébanda LSÍ.
14. grein
Um öll ágreiningsmál er upp kunna að koma innan íþróttarinnar skal farið með samkvæmt kafla 4 í lögum ÍSÍ, um dómstóla ÍSÍ, eftir því sem við á.
15. grein.
Ævifélagar LSÍ geta þeir orðið, sem stjórn LSÍ samþykkir. Heiðursfélaga LSÍ má stjórn þess kjósa ef hún er einhuga um það.
16. grein,
Tillögur um að leggja LSÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu lyftingaþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulegs þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur, er það fullgild ákvörðun um að leggja LSÍ niður. Skal þá afhenda ÍSÍ eignir LSÍ til varðveislu.
17. grein,
Afreksstefna lyftingasambandsins skal endurskoðuð fyrir hvert ólympíu ár
18. grein,
Stjórn og varamenn hafa atkvæðisrétt um val á lyftingakonu og karli ársins, valið skal ávallt miðast við tímabilið 1. Desember til 30. Nóvember. Ef óskað er eftir því getur kosning verið nafnlaus. Val á lyftingakonu og karli ársins skal miðast við árangur íþróttamannsins á liðnu ári og er þá sérstaklega horft til Sinclair stigatölu sem og árangur á alþjóðlegum mótum. Íþróttamenn koma ekki til greina í vali á lyftingakonu og karli ársins á meðan þeir taka út refsingu og í eitt ár eftir að refsingu lýkur vegna brota á lyfjalögum ÍSÍ, IWF og/eða WADA.
19. Grein,
Formaður tækninefndar er kosinn ár hvert á lyftingaþingi. Formaður tækninefndar þarf að hafa lokið tækniprófi IWF í ólympískum lyftingum (e. IWF Technical Officials Examination). Hann/hún útnefnir 4 einstaklinga með sér í tækninefnd sem lokið hafa dómaraprófi.
20. Grein,
LSÍ og allir félagsmenn, keppendur og starfsmenn skulu án undantekninga hlíta lögum ÍSÍ um lyfjamál. Þeir skulu einnig hlíta reglum IWF og WADA í lyfjamálum og hafa Lyfjaeftirlit Íslands, ITA og IWF á hverjum tíma skilyrðislausan rétt og aðgang til að lyfjaprófa iðkendur við æfingar og/eða keppnir.
21.Grein
Fulltrúar íþróttamanna í stjórn LSÍ geta jafnframt verið fulltrúar Íslands í íþróttaráði norðurlandasambandsins (Athletes Commission NWF), þó þurfa það ekki að vera sömu einstaklingarnir. Íþróttamenn þurfa að uppfylla skilyrði alþjóða ólympíusambandsins um fulltrúa íþróttamanna (e. Olympic Charter Bye-law 1 to Rule 21, pertaining to II.1.1-1.6) að undanskildum keppniskröfum en nóg er að hafa keppt á norðurlandamóti eða æðra móti til að bjóða sig fram. Fulltrúar íþróttamanna sitja stjórnarfundi og hafa hafa atkvæði í kosningum stjórnar með að hámarki 30% vægi á móti stjórn.
Bakvísun: Lyftingaþing 2018 | Lyftingasamband Íslands