Mótareglur LSÍ voru samþykktar á lyftingaþingi LSÍ 12.4.2019 og má nálgast hér að neðan:
Reglugerð Lyftingasambands Íslands (LSÍ) um mótahald
1. Kafli. Almenn ákvæði
1.gr. Lyftingamót
Öll mót í ólympískum lyftingum skulu fara fram samkvæmt lögum og reglugerðum LSÍ og ekki brjóta gegn lögum og reglum ÍSÍ eða IWF. Framkvæmd skal fylgja tæknireglum IWF, en stjórn LSÍ getur sett nánari reglur og leiðbeiningar um einstök mót og framkvæmd þeirra.
2.gr. Aldurs- og þyngdarflokkaskipting
Aldurs- og þyngdarflokkaskipting er samkvæmt reglum IWF og eru met skráð í öllum flokkum skilgreindum af IWF.
Á íslensku nefnast flokkarnir
Karlar, Konur, Piltar (20 ára og yngri), Stúlkur (20 ára og yngri), Drengir (17 ára og yngri) og Meyjar (17 ára og yngri). Öldungaflokkar miðast við 5 ára tímabil frá 35 ára og upp í 85 ára og eldri.
LSÍ heldur einnig utan um met í U15 ára (15 ára og yngri) og U23 ára (23 ára og yngri) samkvæmt hvatningu frá EWF sem heldur Evrópumeistaramót í þessum aldursflokkum.
3.gr. Hlutgengi
Rétt til þátttöku á mótum LSÍ hafa allir meðlimir aðildarfélaga LSÍ sem eru skuldlausir við sín félög, LSÍ og rétt skráðir í Felix – félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ.
Erlendir keppendur sem ekki hafa íslenska kennitölu þurfa að vera skráðir hjá sínu landssambandi og verða að fá leyfi hjá viðkomandi landssambandi til að fá að keppa á mótum hjá LSÍ.
4.gr. Framkoma og ábyrgð
Félög, keppendur, forystumenn og aðrir skulu jafnan sýna drengskap og koma fram af hollustu, heiðarleika og sönnum íþróttaanda. Sérhvert félag er ábyrgt fyrir framkomu keppenda sinna og allra þeirra sem hlutverk hafa á vegum þess í tengslum við mótahald og keppni. Viðurlög við brotum á ofangreindum reglum eru ákveðin af aganefnd LSÍ og samþykkt af stjórn LSÍ.
II. Kafli. Reglur um keppendur
5.gr. Skráning keppenda
Öll félög skrá sína meðlimi í Felix – félagakerfi ÍSÍ samkvæmt reglum ÍSÍ. Eingöngu þeir sem eru rétt skráðir og skuldlausir við sitt félag og LSÍ mega taka þátt í mótum hjá LSÍ.
6.gr Lyfjanotkun
Öllum keppendum í aðildarfélögum LSÍ ber að kynna sér gildandi lög og reglur um lyfjamál ÍSÍ og fara eftir þeim.
Meðlimur sem fallið hefur á lyfjaprófi, gerst brotlegur við gildandi lög og reglur um lyfjamál ÍSÍ, sætir rannsókn fyrir meint brot eða bíður dómsniðurstöðu sem varðar hugsanlegt brot á lögum og reglum um lyfjamál má ekki keppa, dæma, starfa eða aðstoða keppendur á mótum á vegum aðildarfélaga LSÍ fyrr en dómur er genginn í málinu.
Árangur keppandans sem og Íslandsmet síðustu 12 mánuði frá því sýnið var tekið þurrkast út ef keppandi er dæmdur í bann, ef keppandi er dæmdur í styttra bann en 12 mánuði þá þurrkast árangur hans út jafn langt aftur og bannið sem hann fær.
III. Kafli. Reglur um dómara
7.gr. Dómaralisti
Listi yfir dómara með réttindi til að dæma á mótum LSÍ skal ávallt vera aðgengilegur á heimasíðu LSÍ (www.lsi.is).
Tækninefnd ber ábyrgð á að listinn sé réttur hverju sinni.
Til að vera á listanum þurfa dómarar að uppfylla eftirtalin skilyrði:
– hafa staðist dómarapróf IWF
– vera skráður í Felix
– hafa dæmt á móti á vegum LSÍ síðastliðin 4 ár
8.gr. Dómarapróf
Stjórn LSÍ skal gangast fyrir a.m.k. á tveggja ára fresti. Stjórn LSÍ skal gangast fyrir upprifjunarnámskeiði fyrir dómara a.m.k. á tveggja ára fresti.
9.gr. Alþjóðadómarar
Stjórn LSÍ skal leitast við að a.m.k. þrír dómarar með alþjóðaréttindi séu á hverju Ólympíuári innan sambandsins. LSÍ stendur straum af kostnaði sem fylgir þessu ákvæði. Alþjóðadómarar hafa forgang við skipun kviðdóms á lyftingamótum.
10.gr. Greiðslur til dómara vegna dómgæslu
Dómgæsla er sjálfboðastarf á mótum LSÍ
IV. kafli. Reglur um mótahald
11. gr. Mótanefnd
Mótanefnd annast yfirstjórn mótamála hjá LSÍ, þar með talið skipulag landsmóta, niðurröðun þeirra, eftirlit með framkvæmd og skráningu í afreksgagnagrunn LSÍ.
Mót er aðeins gilt ef farið er eftir lögum og reglugerðum LSÍ, IWF og ÍSÍ. Mótanefnd getur lagt bann við að mót fari fram, ef sýnt þykir, að ekki verði farið eftir gildandi reglum og lagt til ógildingu úrslita við stjórn LSÍ ef gegn reglum var brotið við framkvæmd mótsins.
12.gr. Mótaskrá
Öll mót sem fara inn á mótaskrá LSÍ eru skráð í afreksgagnagrunni LSÍ. Í lok hvers keppnisárs er mótaskrá næsta árs birt þar sem öll mót innanlands sem hægt er að setja íslandsmet eru auglýst.
Innanfélagsmót fara inn á mótaskrá og úrslit í afreksgagnagrunninn sé tilkynning send 7 sólarhringum fyrir mótsdag, miðað er við miðnætti.
13.gr. Búnaður á mótsstað
Eftirfarandi búnaður er í eigu LSÍ og er skylda fyrir aðildarfélögin að notast við hann á mótum eða annan sambærilegan keppnisbúnað:
4x4m Keppnispallur (10cm hár)
Keppnislyftingasett
Vigt (50gr nákvæmni)
14.gr. Undanþágur vegna innanfélagsmóta
Innanfélagsmót þurfa ekki að nota lyftingapall í 10cm hæð, það nægir af merkja 4x4m gólfflöt, nauðsynlegt er að lofthæð yfir gólffletinum sé minnst 3m.
Eftirlit með framkvæmd á innanfélagsmótum er í höndum yfirdómara mótsins sem skipaður er af tækninefnd. Yfirdómari mótsins sér einnig um að koma úrslitum frá mótinu (keppnisblöðum) til mótanefndar þar sem fram kemur hverjir dæmdu á mótinu.
15.gr. Lágmörk
Stjórn LSÍ er heimilt að ákveða að lágmörk skuli gilda á Íslandsmeistaramótum og öðrum mótum hverju sinni. Lágmörk skulu kynnt á lsi.is um leið og ný mótaskrá er lögð fram og þau taka gildi við upphaf næsta keppnistímabils.
16.gr. Stigakeppni félaga (Stigabikar LSÍ)
Sumarmót, Haustmót og Jólamót telja saman inn í stigakeppni félaga. Mótanefnd LSÍ heldur utan um stigakeppni félaga og staðan í keppninni er birt eftir hvert mót í afreksgagnagrunni sambandsins (results.lsi.is). Reglur um stigakeppni félagsliða má sjá á heimasíðu LSÍ undir „Reglur um stigabikar LSÍ“.
17.gr. Auglýsing móta
Önnur mót en innanfélagsmót skulu vera auglýst á heimasíðu mótshaldara og á lsi.is með minnst 30 daga fyrirvara.
Í auglýsingu um mót skal koma fram:
a) heiti móts
b) nákvæm dagsetning, tímasetning og staðsetning
c) upphæð þátttökugjalds og reikningsnúmer
d) skráningarfrestur og hvar á að skrá sig
e) hvað þarf að fylgja skráningu (nafn, kennitala, tölvupóstur, félag, þyngdarflokkur)
18.gr. Þátttökuréttur og skráning móta
Öll mót sem gilda til íslandsmeta eru opin skráðum félagsmönnum LSÍ, undantekning á þessu eru RIG leikarnir sem haldnir eru ár hvert og er boðsmót þar sem bestu lyftingakonum og körlum er boðin þátttaka útfrá Sinclair stigatölu síðustu tveggja ára.
Félög geta sjálf ákveðið hvort innanfélagsmót þeirra séu opin aðilum úr öðrum félögum eða einungis þeirra eigin félagsmönnum.
Skráning keppenda á mót innanlands skal alfarið fara í gegnum lyftingafélögin. Keppendur greina sínu félagi frá ef þeir hyggjast keppa á móti. Formaður félagsins eða staðgengill sér um að skrá alla keppendur í einu á mótið. Fjöldi keppenda virkjar síðan 20.gr mótareglna.
19.gr. Keppnisgjald
Aðildarfélögin skrá sína keppendur og sjá um greiðslur á mót. Keppendur þurfa að vera skuldlausir við sín félög til þess að geta tekið þátt í mótum á vegum LSÍ.
20.gr. Starfsmenn á mótum
Nauðsynlegt er að hafa minnst 2 stangamenn, 4 á ritaraborði (tímavörð, kynnir, mótaforrit, ritun móts á pappír) og 3 dómara. Á mótum sem gilda til Íslandsmeta þarf að auki að hafa 3 dómara í kviðdómi.
Á mótum öðrum en innanfélagsmótum skulu aðildarfélög sjá um að dómarar úr þeirra félögum starfi á mótinu. Ef félagið getur ekki sent dómara þarf að senda starfsmann sem getur þá annað hvort verið lóðamaður eða á ritaraborði.
0-5 keppendur = 0 dómarar
6-10 keppendur = 1 dómari
11-15 keppendur = 2 dómarar
16 – 20 keppendur = 3 dómarar
21+ keppendur = 4 dómarar
20.1 gr. Starfsmenn RIG
Við mótahald Reykjavíkurleikana (Reykjavík International Games – RIG) skal hvert lyftingafélag á höfuðborgarsvæðinu senda að minnsta kosti 4 starfsmenn til að aðstoða við mótahald, t.d. í uppsetningu eða frágang, að frátöldum dómurum.
21.gr. Dómgæsla
Eingöngu dómarar skráðir á gildandi dómaralista LSÍ mega dæma á mótunum.
Dómgæsla á mótum skal vera samkvæmt reglum IWF.
Dómarar skulu ávallt vera snyrtilega klæddir og ekki í íþróttafötum.
22.gr. Keppnisskýrslur
Mót skulu ávallt rituð á þar til gerð keppnisspjöld samhliða tölvukerfi, keppnisspjöldunum skal skilað til mótanefndar að loknu móti.
23.gr. Frestun/niðurfelling móta
Aðeins má fresta eða fella niður auglýst mót í samkomulagi við mótanefnd LSÍ.
V. Kafli. Reglur um Íslandsmet
24.gr. Skráning Íslandsmeta.
Íslandsmet er eingöngu hægt að setja á eftirfarandi mótum á Íslandi:
o RIG
o Íslandsmeistaramót
o Íslandsmeistaramót/Landsmót Unglinga
o Íslandsmeistaramót Öldunga
o Sumarmótið
o Haustmótið
o Jólamótið
o Meistaramótum íþróttabandalaga og héraðssambanda
Íslandsmet eru skráð í hverjum aldursflokki og þyngdarflokki jafnt karla sem og kvenna í eftirfarandi greinum: Snörun, Jafnhendingu og Samanlögðum árangri.
Eingöngu íslenskir ríkisborgarar geta sett Íslandsmet.
25.gr Notkun stanga og opnunarþyngdir
Keppendur 15 ára og yngri mega á Unglingalandsmóti UMFÍ, Íslandsmeistaramóti Unglinga og á innanfélagsmótum nota eftirfarandi keppnisstangir kjósi þeir það:
15 ára og yngri KK: 15kg kvenna keppnisstöng, lágmarks opnunarþyngd 21kg (stöng + 2.5kg + klemmur)
15 ára og yngri KVK: 10kg tækni stöng, lágmarks opnunarþyngd 16kg (stöng + 2.5kg + klemmur)
Aðrir keppendur þessara móta þurfa að nota eftirfarandi stangir
16-20 ára KK: 20kg karla keppnisstöng, lágmarks opnunarþyngd 30kg (stöng, 2.5kg + lásar)
16-20 ára KVK: 15kg kvenna keppnisstöng, lágmarks opnunarþyngd 25kg (stöng, 2.5kg + lásar)
Á öðrum mótum lyftingasambandsins gilda þær reglur að allir karlar nota 20kg stöng og allar konur 15kg stöng. Lágmarks opnunarþyngdir eru þá 30kg hjá körlum og 25kg á konum.
Á RIG, Íslandsmeistaramótinu og öðrum alþjóðlegum mótum er lágmarksopnunarþyngd 45kg hjá körlum (stöng + 10kg plötur + 2.5kg lásar) og lágmarks opnunarþyngd hjá konum 40kg (stöng + 10kg plötur + 2.5kg lásar).
Mælst er til þess að á Íslandsmeistaramóti Unglinga 2018 og síðar sé keppt í U20, U17 og U15.
26.gr Vigtun keppenda
Á mótum þar sem keppt er í þyngdarflokkum hljóta keppendur 15 ára og yngri keppnisrétt í þeim flokki sem þeir vigtast inn í, ef þeir eru of léttir fyrir skráðan flokk fara þeir niður um flokk og ef þeir eru of þungir fyrir skráðan flokk fara þeir upp um flokk.
16-20 ára þurfa að vigtast inn í þann flokk sem þeir eru skráðir í á mótum sem keppt er í þyngdarflokkum annars fyrirgera þeir rétti sínum til að keppa.
Samþykkt á stjórnarfundi 5.9.2017