Móta og reglunámskeið 16. október

Næsta laugardag, 16. október munu þau Erna Héðinsdóttir Cat. 2 alþjóðadómari, Eggert Ólafsson þjálfari í Ólympískum lyftingum og Brynjar Logi Halldórsson Landsliðskeppandi standa fyrir móta og reglunámskeiði fyrir keppendur, þjálfara og alla þá sem koma að mótahaldi í ólympískum lyftingum. Námskeiðið byrjar kl 17:00 í Crossfit Reykjavík að Faxafeni 12, 108 Reykjavík. Hvetjum við alla keppendur og þjálfara að koma á námskeiðið en sérstaklega keppendur sem stefna á að keppa í fyrsta skipti á komandi mótum. Einnig hvetjum við foreldra keppenda undir 18 ára að koma með krökkunum á námskeiðið.

Hlökkum til að sjá ykkur
Eggert Ólafsson,
Erna Héðinsdóttir og
Brynjar Logi Halldórsson

Brynjar Ari Magnússon á HM U17

Brynjar Ari Magnússon með 110 kg í snörun á HM í Jeddah, Sádí Arabíu

Brynjar Ari Magnússon (f. 2004) keppti í A hóp í 89 kg flokki drengja á Heimsmeistaramóti Youth (U17) í Sádí Arabíu klukkan 13:00 í gærdag. Brynjar opnaði snörunina með eldsnöggum 110 kg sem flugu hratt og örugglega upp. Í næstu snörun hoppaði hann upp um 5 kg og tók 115 kg með full miklum krafti og missti stöngina aftur fyrir sig. Í þriðju og loka snöruninni hoppaði hann upp um önnur 5 kg og þá með 120 kg á stönginni, sem hefði verið jöfnun á junior íslandsmeti í hans flokki (U20). Brynjar náði að halda þyngdinni í botnsstöðu en missir stöðuleikan á leiðinni upp, gengur nokkur skref fram og missir hana aftur fyrir sig. Í fyrstu jafnhendingu opnaði hann í 130 kg en var það 5 kg frá hans besta árangri í jafnhendingu hingað til á móti. Í annari lyftunni hoppaði hann frekar hátt stökk um 10 kg uppí 140 kg. Þar náði hann cleaninu frekar vel en náði ekki alveg undir þyngdina í jerkinu sem hefði endað í press out á olnboga og henti því stönginni frá sér. Í þriðju tilraun í jafnhendingu náði hann cleaninu aftur mjög vel og nær undir stöngina með beina olnboga í jafnhendingunni en hittir ekki alveg á réttan stað undir stöngina og fellur hún aftur fyrir. Þessi árangur gaf Brynjari 110 kg í snörun, 130 kg í jafnhendingu og 240 kg í samanlögðu, vigtaðist hann sem 86.55 kg sem skilaði sér í 282,55 sinclair stigum sem var aðeins undir þeim árangri sem hann lagði upp með að ná á mótinu en allt er þetta lærdómur fyrir ungan lyftara og óskum við honum til hamingju með mótið. Brynjar Ari Magnússon á mikið eftir inni og hlökkum til að sjá hvað hann nær á Norðurlandamótinu í Noregi í næsta mánuði.

Þið getið horft á mótshluta Brynjars HÉR

Brynjar Ari að hita upp fyrir snörun á upphitunarsvæði HM

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir á HM U17

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir með 77 kg í snörun á HM U17 í Sádí Arabíu

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir (f. 2005) átti stórkostlegan dag á Heimsmeitaramóti Youth (U17) í Jeddah í Sádí Arabíu kl: 7:00 í gær morgun á íslenskum tíma. Úlfhildur keppti í 71 kg flokki meyja og fékk allar sínar lyftur gildar sem er gífurlegur árangur útaf fyrir sig á stórmóti en náði Úlfhildur íslandsmeti í snörun með 81 kg sem var þyngsta snörunin í hennar hóp en einnig setti hún 96 kg í jafnhendingu sem er aðeins 1 kg frá núverandi íslandsmeti en með því jafnaði hún íslandsmetið í samanlögðum árangri með 177 kg og hafnaði í 9.sæti á mótinu. Úlfhildur vigtaðist inn í 71 kg flokk sem 70,55 kg og náði því 217,53 Sinclair stigum en hefur þá hækkað hæsta stiga árangur sinn um 6,91 stig. Þetta þýðir einnig að Úlfhildur hefur núna 15 mánuði til þess að bæta sig um 2,6 stig til þess að ná hæstu sinclair stiga tölu sem skráðst hefur í U17 kvenna á íslandi en í dag stendur talan í 220,05 stigum. Til þess að ná þeim árangri, ef Úlfhildur væri þyngdst í sínum þyngdarflokki og þá 71 kg, þá þyrfti hún að ná 180 kg í samanlögðum árangri en væri það bæting um ein lítil 3 kg og því pæling hvort Úlfhildur nái því á Norðurlandamóti Unglinga í næsta mánuði. Til hamingju með árangurinn Úlfhildur!

Þú getur horft á mótshluta Úlfhildar HÉR

Fylgið Úlfhildi á Instagram HÉR

Heimsmeistaramót Youth (U17) í Sádí Arabíu

f.v. Helga Hlín Hákonardóttir, Úlfhildur Arna Unnarsdóttir, Brynjar Ari Magnússon, Sigurður Darri Rafnsson og Magnús B. Þórðarson, mynd tekin í Jeddah í Sádí Arabíu.

Nú liggur leið lyftingamanna landsins aftur yfir landssteinana alla leið til Jeddah í Sádí Arabíu. Þar munu þau Úlfhildur Arna Unnarsdóttir og Brynjar Ari Magnússon fá að spreyta sig, bæði á sínu fyrsta heimsmeistaramóti erlendis. Auðvitað er flott fylgdarlið með í för en það eru þau Magnús B. Þórðarsson Formaður LSÍ og faðir Brynjars, Helga Hlín Hákonardóttir keppandi og móðir Úlfhildar og er það svo unglingalandsliðsþjálfarinn sjálfur hann Sigurður Darri Rafnsson sem rekur lestina. Óskum við þeim velgengis á mótinu!
Áfram Ísland!

Streymt verður keppninni af Facebook síðu Alþjóðalyftingasambandsins (International Weightlifting Federation – IWF) HÉR

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir

keppir í 71 kg flokki í B hóp 9. október kl: 7:00 á íslenskum tíma

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir í botnstöðu í snörun er hún keppti á EM Youth í Póllandi í ágúst síðastliðin

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir (f. 2005) hefur keppt í lyftingum frá 12 ára aldri eða síðan 2017 er hún tók þátt í fyrsta sinn á móti á Íslandsmeistaramóti Unglinga en keppti hún þá í 53 kg flokki meyja. Það mót náði Úlfhildur 29 kg í snörun og 44 kg í jafnhendingu og þá með 73 kg í samanlögðum árangri. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en í dag keppir Úlfhildur í 71 kg flokki og á best 80 kg í snörun, 90 kg í jafnhendingu og 168 kg í samanlögðum árangi. Úlfhildur á hæstu Sinclairstiga tölu í U15 sem skráðst hefur og þriðju hæstu Sinclairstiga tölu í U17 með 210,62 stig. Ekki veit pistlaskrifandi hversu hátt Úlfhildur ætlar á mótinu en telur þó möguleika á því að Úlfhildur taki íslandsmetið í snörun sem Úlfhildur hefur nú þegar jafnað á móti með 80 kg og jafnvel pæling hversu hátt hún nær upp í íslandsmetið í jafnhendingu sem 97 kg í dag eða íslandsmetið í samanlögðum árangri sem er 177 kg. Úlfhildur heldur nú 2 íslandsmetum en hefur sett önnur 24 met á ferlinum.

Brynjar Ari Magnússon

keppir í 89 kg flokki í A hóp þann 9. október kl: 13:00 á íslenskum tíma

Brynjar Ari Magnússon í miðju jarki á Íslandsmeistaramóti Unglinga 2020

Brynjar Ari Magnússon (f. 2004) hefur einnig keppt í lyftingum frá 12 ára aldri eða síðan 2016 þegar hann tók þátt í Íslandsmeistaramóti Unglinga sem haldið var af Lyftingafélagi Hafnarfjarðar sem var og hét. Þá tók Brynjar þátt í 69 kg flokki drengja og náði 50 kg í snörun, 55 kg í jafnhendingu og þá með 105 kg í samanlögðum árangri. Í dag keppir Brynjar í 89 kg flokki drengja og á best 118 kg í snörun, 135 kg í jafnhendingu og 248 kg í samanlögðum árangri. Pislta skrifandi veit ekki hversu hátt Brynjar stefnir á mótinu en hefur Brynjar ekki keppt í lyftingum síðan í desember 2020 og því pæling hvort hann reyni við snörunar íslandsmetið í Junior flokki þar sem hann á öll þeirra í Youth nú þegar og er aðeins 3 kg frá því að taka metið í Junior en svo er mál með vexti að Brynjar heldur öllum íslandsmetum í 81 kg flokki og 89 kg flokki í U15 og Youth (U17) eða 12 íslandsmetum og hefur sett önnur 46 met. Einnig á Brynjar hæstu Sinclair stigatöluna í U15 með 288,59 stig og hæstu í Youth (U17) með 294,94 stig.

Brynjar Logi Halldórsson á EM U20

Brynjar Logi Halldórsson að taka 143 kg í snörun

Brynjar Logi Halldórsson (f. 2002) átti góðan keppnisdag í dag á Evrópumeistaramóti Junior (U20) í Rovaniemi í Finnlandi. EM U20 er fyrsta stórmótið sem Brynjar keppir á og snaraði hann 115 kg en því miður náði ekki upp seinni tveimur lyftunum. Landaði Brynjar svo 143 kg í jafnhendingu og setti þar með nýtt íslandsmet í 81 kg flokki pilta!
Brynjari vantar þá einungis 4 kg upp í U23 metið og ef pistla skirfandi þekkir Brynjar rétt og hann heldur áfram að klífa upp stigan þá verður það met slegið fyrir áramót. Heldur nú Brynjar öllum íslandsmetum í 81 kg flokki í U20, einu íslandsmeti í 89 kg flokki í U20 og einu íslandsmeti í 81 kg flokki í U23. Til hamingju með árangurinn Brynjar!

Nú er mótshluti Íslands á Evrópumeistaramóti U20 og U23 lokið
hægt er að sjá öll úrslit mótsins HÉR

Brynjar Logi Halldórsson

Eygló Fanndal Sturludóttir á EM U20

Eygló Fanndal Sturludóttir á palli með Inga Gunnar Ólafsson til hægri

Eygló Fanndal Sturludóttir (f. 2001) átti æsispennadi keppnisdag í dag á Evrópumeistaramóti Junior (U20) í Rovaniemi í Finnlandi. Eygló keppti í A hóp U20 í 71 kg flokki stúlkna. Eygló náði ekki upp fyrstu tveimur lyftum í snörun en nelgdi sér svo 89 kg í þriðju tilraun og setti þar með íslandsmet í Senior, U23 og Junior flokki. Náði hún einnig 108 kg í jafnhendingu sem var íslandsmet í Senior, U23 og Junior flokki og þar með 197 kg í samanlögðum árangri sem var einnig íslandsmet í Senior, U23 og Junior flokki! Þessi árangur skilaði Eygló 6. sæti á mótinu og 247.39 Sinclair stigum. En með þeim stigafjölda hefur Eygló náð B lágmörkum á Heimsmeistaramótið í Uzbekistan í desember!
Óskum við Eygló innilega til hamingju með þennan stórkostlega árangur!

Þið getið horft á mótshluta Eyglóar HÉR

Katla Björk Ketilsdóttir á EM U23

Katla Björk Ketilsdóttir á upphitnuarsvæði á EM U23

Katla Björk Ketilsdóttir (f. 2000) átti frábæran keppnisdag í dag á Evrópumeistaramóti U23 í Rovaniemi í Finnlandi þar sem hún bætti árangur sinn í snörun um 3 kg á móti og jafnaði íslandsmetið með 83kg í seinustu snörun. Einnig náði hún 99 kg í jafnhendingu og bætti þann árangur sinn um 7kg sem skilaði sér í 182 kg í samanlögðu en er það nýtt íslandsmet í samanlögðu í 64 kg flokki U23 og Senior og persónuleg bæting um 10 kg í samanlögðum árangri á móti síðan á Sumarmóti LSÍ í júní síðastliðinn. Með þessum árangri náði Katla 240.28 Sinclair stigum og hefur því náð C lágmörkum á Heimsmeistaramóti Senior í Uzbekistan í desember!
Óskum við Kötlu innilega til hamingju með þennan stórkostlega árangur!

Þið getið séð mótshluta Kötlu á streymis síðu Finnska lyftingasambandsins HÉR

Katla Björk með 99 kg í jafnhendingu

Evrópumeistaramót Junior (U20) og U23 í Rovaniemi í Finnlandi

Mynd af mótsstað

Þann 24. september síðastliðinn var Evrópumeistaramót (EM) Junior (U20) og U23 opnað en var það jólasveinninn sjálfur sem opnaði keppnina. Aldrei hefur Ísland átt eins marga keppendur á EM Junior og U23 en keppa þau Katla Björk Ketilsdóttir, Eygló Fanndal Sturludóttir og Brynjar Logi Halldórsson. Ingi Gunnar Ólafsson fór sem þjálfari og Erna Héðinsdóttir dæmir á hverjum degi allt mótið. Erna Héðinsdóttir er ein af fáum Category 2 alþjóðadómurum landsins en stefnir hún á að taka Category 1 dómararéttindi seinna á árinu.

Þið getið fylgst með gang mála á Instagrami sambandsins HÉR
Ráslista mótsins getið þið séð HÉR

Þið getið horft á steymi keppninnar HÉR

Katla Björk Ketilsdóttir keppir mánudaginn 27. september kl: 14:00 á íslenskum tíma

Katla keppir í U23 í A hóp 64kg flokki kvenna með skráð 191 í Entry Total og er því smá villa í ráslistanum. Ef Katla er þyngst í sínum þyngarflokki, þá 64 kg slétt og nær 191 í samanlögðum árangri nær hún 247.96 Sinclair stigum en hafa einungis fjórar aðrar íslenskar konur náð hærri sinclair stigum en 241 stig á móti. Kötlu hefur farið mikið fram á æfingum síðast liðnu mánuði en keppti hún á Sumarmóti LSÍ á Selfossi til þess eins að ná lágmörkum á EM U23 og er því búin að stefna að mótinu í ágætis tíma. Katla hefur keppt í lyftingum frá því hún var 16 ára gömul eða í 5 ár og þó svo hún haldi ekki íslandsmeti í dag hefur hún set 84 íslandsmet á ferlinum. Hlökkum við mikið til að sjá hvernig fer á mótinu á morgun. Sér Ingi Gunnar Ólafsson um þjálfun Kötlu

Eygló Fanndal Sturludóttir keppir þriðjudaginn 28. september kl: 16:00 á íslenskum tíma

Eygló keppir í Junior í A hóp 71 kg flokki stúlkna með skráð 208 í Entry Total og er því smá villa í ráslistanum. Ef Eygló er þyngst í sínum þyngarflokki, þá 71 kg slétt og nær 208 í samanlögðum árangri nær hún 254.77 Sinclair stigum en hefur einungis ein önnur íslensk kona náð hærri sinclair stigum en það og það er Þuríður Erla Helgadóttir á HM 2017. Einnig má geta þess að Eygló er að stefna á hæsta samanlagðan árangur sem íslensk kona hefur tekið á móti en hæsti samanlagði árangur er nú 201kg. Eygló hefur keppt í lyftingum frá því hún var 17 ára eða frá 2018 og hefur sífellt farið fram. Tók hún sér árs pásu frá keppnum eftir jólamótið 2019 en kom sterk inn á Norðurlandamóti Youth og Junior 2020 og gerði sér lítið fyrir og sigraði sinn þyngdarflokk. Í samanlögðum árangri á Norðurlandamótinu tók hún 169 kg, á Reykjavíkurleikunum mánuði seinna hækkaði hún sig um 5 kg og tók hún 174 kg í samanlögðu en í Mars á Íslandsmeistaramótinu nelgdi hún öllum lyftum upp og náði 188 kg í samanlögðu og þá búin að bæta sinn samanlagaðan árangur um 19 kg á undir 4 mánuðum. Nú hefur mikið vatn runnið til sjávar og Eygló ekki keppt síðan í Mars er því mikil tilhlökkun í fólki að sjá hverju hún nær á EM Junior og U23 á þriðjudag. Eygló heldur nú 10 íslandsmetum en hefur sett önnur átta. Ingi Gunnar Ólafsson sér um þjálfun Eyglóar.

Brynjar Logi Halldórsson keppir Fimmtudaginn 30. september kl: 6:00 á íslenskum tíma

Brynjar keppir í Junior í 81 kg flokki pilta með skráð 260kg í Entry Total og er því smá villa í ráslistanum. Vitum við ekki alveg hversu hátt Brynjar stefnir á mótinu en á hann best 122 kg í snörun í 81 kg flokki og 140 kg í jafnhendingu í 89 kg flokki eftir Haustmótið fyrr í September. Brynjar reyndi þó við 143 kg í jafnhendingu á Sumarmótinu á Selfossi í júní síðastliðinn en fékk hann hana þó ekki gilda mörgum áhorfendum til mikils ama. Spáir pistla skrifandi því að Brynjar taki þó íslenska jafnhendingarmetið í Junior á EM sem er 140 kg í dag og jafnvel spurning hversu hátt hann mun ná uppí U23 metið sem er 147kg. Á Brynjar nú þegar íslandsmetið í snörun í 81 kg flokki junior og U23. Brynjar Logi á alls ekki langan feril í lyftingum en keppti hann á sínu fyrsta móti í júlí í fyrra (2020) og hefur honum farið ótrúlega hratt fram. Á 11 mánuðum hefur Brynjar náð að hækka samanlagðan árangur sinn um 40 kg, heldur hann 5 íslandsmetum en hefur sett önnur þrjú og náð lágmarki á EM Junior. Dietmar Wolf og Erna Héðinsdóttir sjá um þjálfun Brynjars.

Keppendur fengu ný merkt landliðssinglet að gjöf frá Lyftingasamandinu fyrir mót.

Haustmót LSÍ 2021 – Úrslit

Emil Ragnar Ægisson með 130 kg í snörun. Bætti hann snörun sína um 15 kg frá seinasta móti.

Haustmót Lyftingasambands Íslands (LSÍ) var haldið að þessu sinni af Lyftingafélagi Garðabæjar (LFG) í húsnæði Crossfit XY að Miðhrauni 2 í Garðabæ 18. september.
Mótið gekk vonum framar þar sem keppendur jafnt og starfsmenn stóðu sig með mestu prýði. Framúrskarandi árangur keppenda skiluðu sér í 67 íslandsmetum sem voru sett í unglinga-, öldunga- og fullorðinsflokki. Jafnframt voru margir keppendur að bæta sinn persónulega árangur og óskum við öllum til hamingju með vel heppnað mót. Næsta mót verður 23. október haldið af Lyfingafélagi Reykjavíkur sem er Íslandsmeistaramót unglinga og verður haldið í húsnæði crossfit Reykjavíkur, Faxafeni 12.

Sjá helstu úrslit hér fyrir neðan en öll úrslit mótsins
eru að finna HÉR

Kvennaflokkur

Guðbjörg Valdirmarsdóttir, Hjördís Ósk Óskarsdóttir og Íris Rut Jónsdóttir
 1. sæti
  Hjördís Ósk Óskarsdóttir (f. 1984) frá Lyftingafélagi Garðabæjar með 238,6 Sinclair stig. Hjördís keppti í -71 kg flokki kvenna og lyfti 80 kg í snörun, 105 kg í jafnhendingu og því 185 kg í samanlögðu. Aðeins vantaði 1 kg uppá að taka Senior íslandsmetið í jafnhendingu. Hún setti íslandsmet í öldungaflokki (Masters 35) í þremur lyftum. Hjördís reyndi einnig við 110 kg í jafnhendingu sem tókst ekki en sú lyfta gefði henni 190 kg í samanlögðum árangri. Aðeins sjö aðrar íslenskar konur hafa náð 190kg af samanlögðum árangri eða meira á lyfingarmóti. Hjördís var að keppa í fyrsta skipti síðan 2016 með stórkostlegum árangri og verður gaman að fylgjast með henni á komandi mótum. Þessi árangur er næst stigahæsti árangur síðustu tveggja ára og sjötti stiga hæsti árangur sem íslensk kona hefur náð frá byrjun skráninga. Til hamingju Hjördís!
 2. sæti
  Íris Rut Jónsdóttir (f. 1991) frá Massa (UMFN) með 226,2 Sinclair stig. Íris keppti í -64 kg flokki kvenna og lyfti 73 kg í snörun sem er bæting um 1 kg og 100 kg í jafnhendingu sem náði henni 173 kg í samanlögðum árangri sem er besti árangur sem Íris hefur náð á lyftingarmóti. Til hamingju Íris!
 3. sæti
  Guðbjörg Valdimarsdóttir (f. 1996) frá Hengli með 212,4 Sinclair stig. Var þetta þriðja mót Guðbjargar en keppti hún í -76 kg flokki kvenna og tók 76 kg í snörun og 100 kg í jafnhendingu sem skilaði henni 176 kg í samanlögðum árangri. Bætti Guðbjörg samanlagðan árangur sinn um 20 kg frá því á Íslandsmeistaramóti Senior í mars síðastliðinn. Til hamingju Guðbjörg!

Karlaflokkur

Gerald Brimir Einarsson, Emil Ragnar Ægisson og Brynjar Logi Halldórsson
 1. sæti
  Emil Ragnar Ægisson (f. 1994) frá Massa (UMFN) með 338,8 Sinclair stig. Emil keppti í -89kg flokki karla og náði 130 kg í snörun og 160 kg í jafnhendingu sem gaf honum samanlagt 290 kg í samalögðum árangri sem er 23 kg bæting frá árangri frá því á Reykjavíkurleikunum í janúar 2021. Með þessum árangri setti Emil íslandsmet í jafnhendingu í senior flokki og bætti sitt persónulega met í snörun um 15kg. Þessi árangur Emils setur hann í áttunda stigahæsta karl frá árinu 1998. Til hamingju Emil!
 2. sæti
  Brynjar Logi Halldórsson (f. 2002) frá LFR með 315,3 Sinclair stig. Brynjar keppir vanalega í -81kg flokki en keppti að þessu sinni í -89 kg flokki karla en hann mældist 81.4kg en bætti þrátt fyrir sitt persónulega met í jafnhendingu um 2 kg. Hann setti íslandsmet í snörun í -89 kg flokki pilta (U20) með 120 kg. Til hamingju Brynjar. í næstu viku mun Brynjar fljúga til Finnlands með tveimur öðrum keppendum að taka þátt á Evrópumeistaramóti Junior (U20) og U23 og óskum við honum alls hins besta.
 3. sæti
  Gerald Brimir Einarsson (f. 1998) frá LFG með 307,9 Sinclair stig. Gerald keppti í -89 kg flokki karla og var þetta þriðja mót Geralds en lyfti hann 110 kg í snörun og 146 kg í jafnhendingu sem gera 256 kg í samanlögðum árangri. Jafnaði Gerald samanlagðan árangur sinn frá seinasta móti en hækkaði Sinclair stiga töluna sína um 2,9 stig. Til hamingju Gerald!

Íslandsmet

Senior met

Emil Ragnar Ægisson

Margur man seinast í janúar þegar mikil barátta lá á milli Emils og Arnórs Gauta að ná 160 kg í jafnhendingu á Reykjavíkurleikunum en þá hafði hvorugur lyftuna. En var það þó hann Emil Ragnar Ægisson (f. 1994) frá UMFN-Massa sem setti íslandsmetið í -89kg flokki karla með 160 kg í jafnhendingu í dag. Til hamingju með árangurinn Emil!

U23

Erika M. Jónsdóttir

Erika M. Jónsdóttir (f. 1999) frá Hengli kom sterk inn eftir 4 ára keppnispásu og gerði sér lítið fyrir og setti 3 íslandsmet á mótinu í -87 kg flokki kvenna í U23 með 79 kg í snörun, 100 kg í jafnhendingu og 179 kg í samanlögðu. Til hamingju með þetta Erika!

Indíana Lind Gylfadóttir

Indíana Lind Gylfadóttir (f. 2000) frá LFG bætti snörunina sína um 5 kg síðan á ÍM í mars síðastliðinn og hreppti íslandsmet í leiðinni með 79 kg í snörun í +87kg flokki kvenna. Til hamingju Indíana!

Junior (U20) met

Bjarki Breiðfjörð Björnsson

Bjarki Breiðfjörð Björnsson (f. 2003) frá UMFSelfoss setti nýtt met í snörun í 73 kg flokki pilta með 102 kg. Reyndi hann einnig við annað íslandsmet í U20 þá 120 kg í jafnhendingu en hafði ekki, það munum við vonandi sjá fara upp á næsta móti. Til hamingju Bjarki!

Brynjar Logi Halldórsson

Brynjar Logi Halldórsson (f. 2002) frá LFR setti nýtt met í -89kg flokki pilta með 120 kg í snörun. Til hamingju Brynjar!

U15 met

Bergrós Björnsdóttir

Bergrós Björnsdóttir (f. 2007) frá UMFSelfoss setti met í 71 kg flokki meyja með 91 kg í jafnhendingu 14 ára gömul. Bætti Bergrós samanlagðan árangur sinn á móti um 26 kg með 75 kg í snörun og 91 kg í jafnhendingu og þá 166 kg í samanlögðum árangri en keppti hún seinast á Norðurlandamóti Youth og Junior í desember í fyrra í -64 kg flokki.
Til hamingju með þennan frábæra árangur Bergrós!

Öldungamet

Hjördís Ósk Óskarsdóttir

Hjördís Ósk Óskarsdóttir (f.1984) frá LFG setti fimm met í 71 kg flokki Masters 35 sem endaði í 80 í snörun, 105 kg í jafnhendingu og 185 kg í samanlögðum árangri.
Til hamingju með Hjördís og velkomin aftur á pallinn!

Guðmundur Sigurðsson

Guðmundur Sigurðsson (f. 1946) frá LFM var aðal stjarna dagsins en keppti hann í -102 kg flokki karla í Masters 75. Setti Guðmundur íslandsmet í öllum þeim lyftum sem hann náði sem endaði í 67 kg í snörun, 96 kg í jafnhendingu og 163 kg í samanlögðum árangri. Guðmundur setti í raun 54 íslandsmet í gær í Masters 35-75 og tvíbætti heimsmet í jafnhendingu í Masters 75 og reyndi við heimsmetið í snörun í Masters 75. Fær hann metið sitt þó ekki gillt sem heimsmet nema á vissum mótum og því spurning hvort Guðmundur slái til og fari á Heimsmeistaramót Masters á næsta ári og sigri með stæl. Til hamingu Guðmundur, þú ert algjörlega einstakur!