Ísland sigurvegari smáþjóðamótsins í lyftingum annað árið í röð og Brynjar Logi náði besta árangir íslensks lyftara í sinclairstigum frá 1998.

Senior lið Íslands sigraði smáþjóðamótið í lyftingum sem fram fór í Mónakó núna um helgina með glæsibrag annað árið í röð. Það voru þau Brynjar Logi Halldórsson, Kári Einarsson, Katla Björk Ketilsdóttir og Guðný Björk Stefánsdóttir sem kepptu fyrir Íslands hönd í senior flokki.

Junior liðið okkar skipað Þórbergi Erni Hlynssyni og Bríet Önnu Heiðarsdóttur lenti í öðru sæti í junior liðakeppni.

Mótið er liðakeppni þjóða sem hafa miljón íbúa eða færri og eru aðilar að Smáþjóðasambandinu. Í ár keppa auk Íslands, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Monakó, San Marino líkt og áður en í ár bætast Gíbraltar og Færeyjar einnig í hópinn auk þess sem franski klúbburinn Saint Marcellin keppir sem gestur á mótinu en tekur ekki þátt í eiginlegri liðakeppni

Mótið er Sinclairstigamót og verðlaunað fyrir stigahæsta liðið, stigahæsta lið karla og stigahæsta lið kvenna auk stigahæstu keppenda af hvoru kyni.Í hverju liði keppa 2 senior karlar og 2 senior konur en auk þess er junior lið skipað 1 junior karli og 1 junior konu.

Önnur verðlaun Íslands voru:
Senior karlar höfnuðu í öðru sæti.
Senior konur höfnuðu einnig í öðru sæti.
Brynjar Logi varð annar í stigakeppni karla og Kári í fjórða sæti.
Guðný varð önnur í stigakeppni kvenna og Katla Björk þriðja.
Þórbergur Ernir var annar í stigkeppni junior karla.
Bríet Anna þriðja í stigakeppni junior kvenna.

Bríet hóf leikinn  í B grúbbu kvenna sem junior keppandinn okkar með 55kg góðri snörun, hún reyndi síðan við 58kg sem hún náði ekki alveg jafnvægi með í botnsöðunni, reyndi við hana aftur en ekki vildi hún alla leið þennan daginn. Í C&J opnaði hún í 65kg, tók því næst 68kg og hækkaði í 71 kg þar sem hún náði ekki að standa upp úr cleaninu.
Niðurstaðan 55kg – 68kg og samanlagt 123kg

Næstur á pall var Kári Steinn Einarsson í B grúbbu karla. Einhver örlítill sviðsskrekkur varð til þess að hann missti 110kg opnun í snörun, en tók hana svo aftur með glæsibrag í annarri tilraun, hækkaði í 115kg í þriðju tilraun og kláraði hana vel.
Hann kom svo hungraðir og öruggur inn í  C&J  og opnaði í  135kg, tók því næst 140kg og að lokum 145kg sem er 2kg bæting á hans besta árangri í C&J. Allt öruggar grimmar lyftur.
Niðurstaðan 115kg – 145kg og samanlagt 260kg

Næst var komið að A grúbbu kvenna en þar kepptu þær Katla og Guðný.

Katla hefur verið á góðri siglingu í bætingum eftir að hún eignaðist dóttur sína fyrir tæpu ári síðan.  Það er alltaf einstaklega gaman að horfa á Kötlu snara og tæknin hennar og botnstaða einstaklegt augnayndi. Á mótinu tók hún örugg, falleg 78kg, 81kg og 85kg sem er 1 kílós bæting frá því á EM í febrúar síðastliðnum. Í C&J opnaði hún í 95kg, hækkaði svo í 98kg, en náði ekki að standa upp úr cleaninu, tók þá þyngd aftur og kláraði hana með stæl og bætti þar einnig árangurinn frá EM um 1kg og samanlagðan árangur um 2kg.
Niðurstaðan 85kg – 98kg og samanlögð 183kg.
Þessi árangur gefur henni C lágmörk á HM og B lágmörk á EM.

Guðný hóf leikinn á 90kg snörun, en lyfti á 30 sec. hljóðinu, fipaðist mögulega við það og missir stöngina aftur fyrir sig. Hún fór svo aftur í 90 kg sem hún náði með glæsibrag. Í þriðju tilraun reyndi hún við 95kg sem hún missti einnig aftur fyrir sig líkt og fyrstu lyfting.
Í C&J opnaði hún í góðri 105kg lyftu, tók því næst enn betri 110kg lyftu. Í þriðju tilraun bað hún um 112 kg á stöngina en cleanið fór ekki alveg að óskum.
Niðurstaðan 90kg – 110kg og samanlögð 200kg

Í A grúbbu karla var svo komið að Þórbergi Erni í junior og Brynjari Loga en það má með sanni segja að krulluhausafélagið hafi átt gríðarlega gott mót.


Þórbergur vigtaðist 96,6kg og fær því árangurinn sinn skráðan í 102kg flokki.
Hann opnaði með góðri 118kg snörun, reyndi svo tvisvar við 123kg sem ekki vildu upp þann daginn. 118kg engu að síður Íslandsmet í junior 102kg flokki.
Í C&J  opnaði hann í 143kg góðri lyftu, reyndi svo við 148 kg en jerkið gekk ekki sem skyldi. Hann hækkaði engu að síður í 150kg sem hann negldi með stæl og jafnaði þar junior íslandsmet í 102kg flokki. Þetta er einnig persónuleg bæting um 5 kg. í C&J.

Brynjar Logi Halldórsson átti að lokum sögulegan dag með 6 gildum lyftum, líkamsþyngd 82,30kg , 125 -130 -135 snatch og 150 – 157 – 165 C&J. Sem er 5 kg bæting á hans besta árangri í C&J , íslandsmet í C&J og sögulegut 300kg Íslandsmeti í samanlögðu en í gagnagrunni  Lyftingasambands Íslands  https://results.lsi.is/rankingall/total/m og hefur enginn karl frá árinu 1998 náð 300 total og verið undir 100 kg í líkamsþyngd.

En það er ekki nóg með það því úr því er reiknuð svokölluð Sinclair stig og er hann með 377,47 sem eru hæstu sinclairstig sem Íslendingur á í núverandi gagnagrunni frá 1998. En á þeim lista stökk hann úr 6. sæti í það fyrsta með tæpri 22 stiga bætingu og sló þar 19 ára gamalt met Gísla Kristjánssonar.

Staðreyndin er líka sú að Íslandsmetin tók hann af Sigurði Darra Rafnssyni sem var þjálfarinn hans á mótinu og mesti peppari mótsins – þessir tveir eru snillingar saman.

Besta sinclairið tók hann, eins og áður sagði af okkar fremst lyftara til margra ára, Gísla Kristjánssyni, en hann kenndi mömmu hans að lyfta sem svo kenndi Brynjari að lyfta og þeir félagar æfa oft saman.

Án þessara tveggja hefði þetta ekki gerst – því við gerum hvert annað betra og erum á endanum öll í sama liði.

Það er svo að lokum gaman að segja frá því að Íslenska liðið átti salinn og mikil stemming og hvatning úr salnum þegar keppendurnir okkar voru að lyfta.
Einstök keppnisgleði og góð stemming var í hópnum og virkilega góð ferð að baki.

Við þökkum Sigurði Darra fyrir frábært starf sem þjálfara á mótinu, Hlyni Skagfjörð Pálssyni fyrir stuðning, aðstoð og ljósmyndastörf og Ernu Héðinsdóttir fyrir dómgæslu auk þess sem hún sá um skipulag og utanumhald ferðarinnar í heild.

Við höfum því miður ekki fengið heildarúrslitin frá mótinu til að setja inn í gagnagrunninn okkar… en það kemur við fyrsta tækifæri.

2 hugrenningar um “Ísland sigurvegari smáþjóðamótsins í lyftingum annað árið í röð og Brynjar Logi náði besta árangir íslensks lyftara í sinclairstigum frá 1998.

  1. Frábær árangur hjá íslenska liðinu og þá ber hæst afrek Brynjars Loga. Sem áhugamaður um lyftingar og tölfræði hlýtur að vakna spurning um afhverju er sérstaklega settur tímarammi frá 1998? Breyttust eitthvað forsendur Sinclair stiganna þá? Ekki veit ég hversu margir eru á þessum vef sem þekkja til sögu lyftinga en augljóst er að frá 1972 þegar pressan var tekin út hafa allmargir skorað fleiri stig en 377 samkvæmt gagnagrunni LSÍ. Allavega níu manns og til að gera langa sögu stutta skal ég nefna þá hér ef einhver vill sannreyna það: Gústaf Agnarsson, Guðmundur Sigurðsson,Birgir Borgþórsson, Baldur Borgþórsson, Garðar Gíslason, Gylfi Gíslason, Haraldur Ólafsson, Guðgeir Jónsson og Guðmundur Helgason. Með fyrirvara um villur slæ ég þessu fram. Vera má að einhverjar forsendur hafi breyst en gaman væri að vita það. Með fyrirfram þökkum Valbjörn Jónsson.

  2. Þetta er alveg góður punktur hjá þér Valli en þegar gagnagrunnurinn var tekinn upp þá höfðum við ranking listann miðað við þyngdarflokka breytingarnar sem áttu sér stað 1998 og gerðum ekki endilega ráð fyrir fleiri þyngdarflokkabreytingum (en annað kom í svo í ljós). Einn helsti gallinn við gömlu skráninguna er að oft er bara þyngdarflokkurinn skráður en ekki nákvæm líkamsþyngd sérstaklega á þetta við mörg mót innanlands. Það eru helst erlendu mótin NM og önnur stórmót sem við erum með nákvæma líkamsþyngd á gamla árangrinum.

    Það var svona hluti af þessu að frá 1998 erum við með þetta allt rétt en það væri kanki rétt að vera með annan lista með öllum árangri í kerfinu! T.d. fyrir 1977 áður en 100kg flokkurinn kom inn gátu menn verið á helvíti víðu bili og yfirleitt þegar ég hef sett inn gamlan árangur sem nálgast eitthvað um 15þús innslætti þá hef ég sett 90kg ef keppandinn var í -90kg flokk og 110,10kg ef hann var í +110kg flokk. Það þýðir að einhverjir gætu mögulega tapað smá í Sinclair útreikningum en kanski helst þeir sem eru í súpernum græða.

    Sinclair stigin eru uppfærð í öllu kerfinu þegar hann er endurnýjaður sem var síðast gert núna 2022, þá uppfærast allar tölur þannig það er ekki notast við þann Sinclair sem var í gangi þegar lyftan átti sér stað. T.d. var Andri Gunnars fyrir ofan Gísla en færðist fyrir neðan Gísla í síðustu uppfærslu.

    Við erum að gera nokkrar uppfærslur á gagnagrunninum og ég tek þetta til skoðunnar!

    Bkv.

    Ásgeir

Færðu inn athugasemd