
Eygló Fanndal Sturludóttir (f.2001) hreppti í dag fyrstu gullmedalíur á Evrópumeistaramóti í lyftingum, frá upphafi. Ein gullmedalía dugði ekki heldur gerði hún gott betur og kemur heim með gull í öllum greinum. Snörun, jafnhendingu og samanlögðu. Eygló bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur, en sú sem varð í 2. sæti var 12kg undir Eygló í samanlögðum árangri.Þess má geta að Eygló heldur nú öllum íslandsmetum í U20, U23 og Senior í 71 kg og 76 kg flokki kvenna. Einnig heldur hún norðurlandametum U20 í snörun bæði í 71 kg flokki og 76 kg flokki.


Brynjar Logi Halldórsson (f.2002) átti einnig gott mót, en hann tvíbætti íslandsmetið í snörun, 132kg sem hann lyfti í annari tilraun og fór svo örugglega með 135kg í 3 og síðustu tilraun. Í jafnhendingunni náði hann 156kg sem er bæting á hans eigin íslandsmeti, og reyndi við 161kg í síðustu tilrauninni, sem gekk ekki upp í þetta skiptið. Brynjar hefur stefnt að því frá því í fyrra að ná 300 kg í samanlögðum árangri fyrir lok 2022 og á hann nú bara 9 kg eftir af því markmiði.

Úlfhildur Arna Unnarsdóttir (f.2005) keppti einnig, en fór einungis upp með opnunarlyftungar sínar, 83kg í snörun og 101kg í jafnhendingunni. Hún hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár, og einungins 17 ára gömul. Við eigum eftir að sjá töluvert meira af henni í framtíðinni.
